Túlkun RNA og FME hafnað

 

Rannsóknarnefnd Alþingis studdist við allt önnur viðmið en í gildi voru samkvæmt lögfestum reglum á Íslandi og innan Evrópu um mat á tengslum vegna stórra áhættuskuldbindinga af útlánum, eins og ég hef ítrekað bent á. Fjármálaeftirlitið virðist hafa stuðst við sambærilega túlkun í málatilbúnaði sínum fyrir dómstólum. Þeirri túlkun hefur nú verið vísað til föðurhúsanna af héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Sú staðreynd ætti að verða forseta Alþingis tilefni til að endurskoða þá ákvörðun sína að hafna birtingu athugasemda minna á vefsíðu Alþingis, þar sem skýrsla rannsóknarnefndar fær ein að ríkja, með öllum sínum rangfærslum.

 

 

Jónas Fr. Jónsson, lögmaður og fyrrverandi forstjóri FME, ritar grein í Morgunblaðið í morgun undir yfirskriftinni „Rannsóknarnefnd Alþingis á villigötum“. Hann vísar þar til dóms Hæstaréttar í síðustu viku og segir dóminn staðfesta að RNA hafi verið á villigötum í umfjöllun sinni um stórar áhættuskuldbindingar. Forstjórinn fyrrverandi fer ágætlega yfir hugtakið „hópur tengdra viðskiptamanna“ samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar og bendir á það sem öllum ætti að vera ljóst, að fjölskyldutengsl eða vinatengsl leiða ekki sjálfkrafa til tengsla í þessum skilningi, ef ekki er um yfirráð eða fjárhagslegt hæði að ræða. „Þessi samevrópsku lögfræðihugtök verða ekki skilin á séríslenskan hátt,“ ritar Jónas.

Ekki í samræmi við lagalegan veruleika

Jónas skýrir einnig hvað felist í hugtökunum „yfirráð“ og „fjárhagsleg tengsl“. Hann segir það ranga afstöðu hjá RNA að hugtakið „yfirráð“ ætti að túlka víðtækt og að fella mætti samstarf þar undir. Þá hafi RNA talið einsýnt að málum, sem voru til rannsóknar hjá FME, hefði átt að vera lokið með sektum eða ákærumeðferð. „Lítið var gefið fyrir sjónarmið um vandaða málsmeðferð,“ ritar Jónas. „Núna, tæpum 44 mánuðum frá setningu neyðarlaganna, 40 mánuðum eftir að sérstakur saksóknari tók til starfa og 26 mánuðum eftir skýrslu RNA, hefur ekkert heyrst af ákærum eða stjórnvaldssektum vegna brota á reglum um stórar áhættuskuldbindingar í gömlu viðskiptabönkunum. Þannig hafði RNA rangt fyrir sér um að mál væru augljós og tæk til viðurlagabeitingar,“ skrifar Jónas og bætir við að „víða í umfjöllun RNA um áhættuskuldbindingar og tengsl er byggt á skilgreiningum á yfirráðum sem ekki eru í samræmi við lagalegan veruleika.“

 Þvert gegn viðtekinni framkvæmd og túlkun

Í ítarlegum athugasemdum mínum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem birtar voru á þessum vef í apríl á síðasta ári, benti ég meðal annars á undarlega túlkun rannsóknarnefndar Alþingis á því hvenær fjárhagsleg tengsl viðskiptavina banka verða það mikil að áhætta af útlánum til þeirra telst ein og hin sama. Viðmið nefndarinnar gengu þvert gegn viðtekinni framkvæmd og túlkun reglnanna. Með túlkun sinni tókst rannsóknarnefndinni til dæmis að reikna heildarskuldbindingar mínar miklu hærri en raunin var.

Undirnefnd rannsóknarnefndarinnar, sem gerði úttekt á siðferði og starfsháttum, fór einnig mikinn og oft á röngum forsendum. Í skrifum hennar stendur meðal annars: „Einnig hefur vakið athygli að Björgólfur Thor og faðir hans Björgólfur Guðmundsson voru ekki flokkaðir sem tengdir aðilar í Landsbanka.“ Þarna horfðu siðapostularnir framhjá reglum um tengda aðila í bankaviðskiptum. Blóðbönd eða fjölskylduvensl skipta þar engu. En það þarf vart að koma á óvart að undirnefnd Rannsóknarnefndar hafi ritað á þennan veg, því eftir höfðinu dansa limirnir.

Og enn má nefna, að í viðauka við skýrslu RNA skrifar danski hagfræðingurinn Jørn Astrup Hansen að  „skuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga undir stjórn þeirra feðga [voru] orðnar það miklar að fall aðeins eins þeirra hefði örugglega dregið ekki aðeins Landsbankann heldur einnig Glitni með í fallinu.“ Við útgáfu skýrslu RNA var þó fyrir löngu ljóst að gjaldþort föður mín leiddi ekki til gjaldþrots hjá mér – að hagur minn, föður míns, félaga í okkar eigu og tengdum okkur var alls ekki svo samofinn að fall eins leiddi af sér fall annarra.

Hlutlæg umræða forsenda greiningar og lærdóms

Jónas Fr. Jónsson kallar eftir hlutlægri umræðu um skýrslu RNA og bendir á að það myndi bæta greiningu og lærdóm vegna fjármálakreppunnar 2008 ef þeir aðilar, sem vilja ástunda gagnrýna hugsun og vandaða heimildaöflun nálguðust skýrslu RNA á sama faglega hátt og Hæstiréttur Íslands. Undir þau orð tek ég heils hugar. Ég hef sjálfur lagt fram athugasemdir mínar, sem enginn hefur hrakið. Þær málefnalegu athugasemdir hef ég ekki fengið birtar á sama vettvangi og rangfærslur rannsóknarnefndarinnar. Eftir sneypuför FME fyrir dómstóla, þar sem nýrri túlkun embættisins og rannsóknarnefndar Alþingis er alfarið hafnað, verður vonandi breyting þar á.