Traust í viðskiptum og skuldaskil

Viðtal sem Sveinn Helgason fréttamaður tók við mig í New York í síðustu viku hefur nú verið birt á vef RÚV. Við Sveinn fórum nokkuð víða í þessu 9 mínútna spjalli. Megináherslan var á sölu Actavis til Watson, enda var það tilefni viðtalsins. Ég lagði áherslu á að salan væri mikilvægur hluti af skuldauppgjöri mínu, en ég myndi eignast hlut í Watson þegar fram liðu stundir og væri bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins. Ég benti á að lánardrottnar gengju sáttir frá borði.

 

Sveinn spurði mig sérstaklega hvað ég nyti mikils trausts í alþjóðlegum viðskipta- og fjármálaheimi. Ég sagði mína stöðu ágæta, mikilvægast hlyti að vera að þeir sem fengju lánsfé greiddu það til baka. Það hefði ég einsett mér að gera og væri nú komin langleiðina að því markmiði.

Þá ítrekaði ég að allar mínar eignir lægju undir, ég hefði verið í gríðarlegum persónulegum ábyrgðum og eftir 2-3 ár væri staðan vonandi sú að uppgjör væri að baki. Þá gat ég upplýst að engar rannsóknir væru í gangi sem beindust að viðskiptum mínum, hvað þá að ákærur hefðu litið dagsins ljós.

Sveinn spurði mig um ábyrgð mína á stefnu Landsbankans, vinnubrögðum, Icesave og öðru í aðdraganda hrunsins. Þá rifjaði ég upp að ég hefði beðið þjóðina afsökunar á mínum hlut, ég hefði tekið þátt í þessum mikla darraðardansi, þótt ég hefði ekki borið ábyrgð á stefnu Landsbankans. Ég hefði verið stærsti eigandi, hagnast mest þegar vel gekk, tapað mestu þegar illa gekk og ég myndi halda mér víðsfjarri bönkum hér eftir.

Loks lagði ég, aðspurður, áherslu á að ég væri sannarlega ekkert fórnarlamb. Hins vegar væri ég einn örfárra sem hefðu játað ábyrgð sína og mistök. Fórnarlömbin á Íslandi væru allt of mörg, en gerendur, sem játuðu ábyrgð sína, væru sjaldséðir. Að lokum gagnrýndi ég þá lensku á Íslandi að slíta umræðu um kreppuna frá alþjóðlegri umræðu, því önnur lönd ættu ekki síður við vanda að etja en Ísland. Nú yrðu menn að líta fram á veg og gera eitthvað nýtt.