Þrír samningar í höfn hjá gagnaveri

Gagnaver Verne Global í Reykjanesbæ var formlega opnað í gær. Það er mjög ánægjulegur áfangi í vegferð, sem lokið verður árið 2017 og skapar 100 störf. Í dag bættust tölvuleikjafyrirtækið CCP og sprotafyrirtækið GreenQloud í hóp viðskiptavina gagnaversins.

 

Um þessar mundir eru fjögur ár liðin frá því að Verne keypti byggingar af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og hóf þannig undirbúning þess að byggja upp öflugt gagnaver. Sú uppbygging hefur gengið vel, en henni er hins vegar ekki lokið. Reiknað er með að gagnaverið verði fullbúið í fjórum byggingum eftir fimm ár, árið 2017. Þegar rekstur verður kominn á fullan skrið munu skapast um 100 störf hjá fyrirtækinu, en fjöldi manns hefur hingað til haft atvinnu af framkvæmdum vegna gagnaversins. Gagnaverið er því kærkomin viðbót á því svæði þar sem atvinnuleysið er hvað mest á landinu.

Í desember sl. samdi gagnaverið við bandaríska fyrirtækið Datapipe um hýsingu í netþjónabúinu, en Datapipe sérhæfir sig í umhverfisvænum lausnum í upplýsingatækni og hefur fengið viðurkenningu Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna vegna umhverfisstefnu sinnar. Samstarf þess við Verne Global samrýmist fyllilega þeirri stefnu, enda nýtir Verne hreina og endurnýjanlega orku. Hinar sjálfbæru orkulindir, stöðugleiki orkunnar og góð tenging við umheiminn eru grundvallarskilyrði fyrir rekstri gagnavers Verne.

 Í dag var svo upplýst um fleiri samninga gagnaversins við viðskiptavini. Annars vegar er það íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP, sem er einna þekktastur fyrir EVE Online. Hins vegar er það  GreenQloud, annað íslenskt fyrirtæki, en þetta áhugaverða sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum opnaði fyrsta umhverfisvæna tölvuský heims árið 2010.

Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust.