Sorglegt

Sorglegt – var það fyrsta sem kom mér í hug þegar ég frétti að tillaga um opinbera rannsókn á einkavæðingu bankanna dagaði uppi á Alþingi nú í þinglok. Ég hef lagt mig fram um að koma á framfæri opinberlega gögnum um einkavæðingu Landsbankans og lýsingum á atburðum eins og þeir blöstu við mér. Þá hafa fræðimenn rannsakað tiltekna þætti einkavæðingarinnar og birt lærðar greinar. Þegar fréttir berast síðan af því að tillaga um rannsókn á þessari tíu ára gömlu einkavæðingu komist ekki í gegnum Alþingi vegna ótta sumra um að einnig upplýsist um enn nýrri aðgerðir stjórnvalda þá er ekki nema von að maður velti því fyrir sér hvað það er sem stjórnmálamenn eru hræddir við að komi á daginn?

 

Stjórnmálamönnum er tíðrætt um gagnsæi og þeir samþykkja lög sem skylda fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að upplýsa allt milli himins og jarðar. Þá eru ótaldir lagabálkarnir um rétt ríkisins til upplýsinga um hin smæstu mál er varða einstaklinga og fyrirtæki. Allt þykir þetta rétt og gott í nafni upplýstrar umræðu og gagnsæis á gangvirki samfélagsins. Annað hljóð kemur þó í strokkinn þegar að málefnum stjórnmálamannanna kemur. Þá finnast ástæður fyrir því að ekki sé rétt að upplýsa nema þá ef vera skyldi mál er varða andstæðingana í pólitík.

Það er með ólíkindum að á Alþingi Íslendinga skyldi hafa dagað uppi tillaga um opinbera rannsókn á einkavæðingu bankanna. Stjórnmálamenn hafa í áratug þjarkað fram og til baka um hvernig að þessu var staðið og hafa því fylgt ásakanir um spillingu og hafa fjölmargir verið dregnir ofan í það svað.  Þegar loks á að upplýsa hvað raunverulega gerðist þá fellur stjórnmálamönnum allur ketill í eld. Nú er ástæðan fyrir því að ekki  má upplýsa að sumir vilja líka upplýsa um skyld mál frá þessu kjörtímabili, á meðan aðrir eru því algjörlega mótfallnir. Þá er auðveldasta lausnin sú að sameinast um að gera ekki neitt og halda áfram að ásaka mann og annan um sviksemi og spillingu án þess að allar upplýsingar liggi fyrir.

Hvað er að óttast?

Ég hef lagt mig fram um að koma á framfæri opinberlega gögnum um einkavæðingu Landsbankans og lýsingum á atburðum eins og þeir blöstu við mér. Fræðimenn hafa líka rannsakað tiltekna þætti einkavæðingarinnar og birt lærðar greinar. Vísir að rannsókn á einkavæðingunni fór fram á vegum rannsóknarnefndar Alþingis, en hún fjallaði ekki um alla þætti málsins. Sú rannsókn var þar að auki ófullnægjandi m.a. vegna þess að ekki var leitað til málsaðila, eins og ég hef bent á í athugasemdum mínum við skýrslu nefndarinnar. Þó svo ég hafi verið þátttakandi í einkavæðingu bankanna þá þekki ég aðeins afmarkaðan þátt málsins – sem er hlið kaupenda  Landsbankans. Ég veit ekki hvað réði ferðinni hjá seljandanum – ríkisvaldinu, eins og fjölmörg bréf mín og yfirlýsingar frá sölutímabilinu sýna skýrt fram á. Þá veit ég hvorki hvernig var í pottinn búið hjá kaupendum Búnaðarbankans né hvernig samskiptum þeirra við stjórnvöld var háttað. Þá er aðkoma Kaupþings að málinu hulin ráðgáta, en eins og alþjóð veit eignaðist Kaupþing Búnaðarbankann áður en blekið var þornað á kaupsamningi S-hópsins við ríkið.

Ég er sannfærður um að margt hefur ekki litið dagsins ljós varðandi sölu ríkisins á hlutum sínum í bönkunum og tryggingafélaginu VÍS. Þess vegna tel ég brýnt að opinber rannsókn á þessari einkavæðingu fari fram. Því fyrr því betra. Hvers vegna hefjast stjórnvöld ekki handa við rannsóknina? Hvað eru pólitíkusar hræddir við? Hvað hafa menn að fela?