Skuldauppgjör á áætlun

Viðskiptablaðið greindi í gær frá stöðunni á skuldauppgjöri mínu við lánardrottna. Þar kom fram að uppgjörið er nú rúmlega hálfnað, en stórt skref var stigið í vor með sölunni á Actavis til Watson. Skuldauppgjör mitt gengur samkvæmt áætlun og eftir því samkomulagi sem náðist við alla kröfuhafa í júlí 2010.

Gísli Freyr Valdórsson blaðamaður Viðskiptablaðsins ritar fréttina og rifjar upp söluna á Actavis. Hann bendir á að stærsti hluti 700 milljarða króna kaupverðs á Actavis hafi runnið til Deutsche Bank, en auk þess hafi ég eignast hlut í Watson. Þá ritar hann að svo virðist sem kröfuhafar séu þolinmóðir gagnvart mér og treysti á að verðmæti þeirra fyrirtækja sem ég á hlut í aukist enn.
Af þessu tilefni rifjaði ég upp viðtal sem Sveinn Helgason, fréttamaður RÚV, tók við mig í New York þegar samningarnir voru að baki. Hann spurði mig sérstaklega hvað ég nyti mikils trausts í alþjóðlegum viðskipta- og fjármálaheimi. Ég sagði mína stöðu ágæta, mikilvægast hlyti að vera að þeir sem fengju lánsfé greiddu það til baka. Það hefði ég einsett mér að gera og væri nú komin langleiðina að því markmiði.

Þá ítrekaði ég að allar mínar eignir lægju undir, ég hefði verið í gríðarlegum persónulegum ábyrgðum og eftir 2-3 ár væri staðan vonandi sú að uppgjör væri að baki. Þá gat ég upplýst að engar rannsóknir væru í gangi sem beindust að viðskiptum mínum, hvað þá að ákærur hefðu litið dagsins ljós.