Sex ára rógur

DV vitnaði í vikunni í sex ára gamla skýrslu, sem var pöntuð og borguð af samkeppnisaðilum mínum og Actavis. Þótt blaðið reki þar róg og dylgjur kemur ekkert fram um hvers vegna sá óhróður telst frétt núna, sex árum síðar. Hver telur sig hafa hagsmuni af að koma þessu gamla efni á framfæri? Og hvers vegna hleypur DV til?

 

Fyrir margt löngu, árið 2006, ákvað lyfjafyrirtækið Actavis að reyna að kaupa lyfjafyrirtækið Pliva. Actavis var ekki eitt um hituna, því lyfjafyrirtækið Barr vildi líka kaupa. Barr beitti öllum ráðum í baráttu sinni. Í vopnabúri Barr var m.a. skýrsla, sem félagið lét skrifa fyrir sig og dreifði sem víðast, til að reyna að sýna aðilum í viðskiptalífinu að réttara væri að skipta við menn þar á bæ fremur en Actavis og helsta eiganda þess.

Í skýrslu þessari er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum (eða manni, eðli málsins samkvæmt er erfitt að ganga úr skugga um fjölda „ónafngreindra“) að ég sé illur viðureignar og alveg sérstaklega ef ég fari út að skemmta mér! Alls konar fullyrðingar um mig eru tilgreindar í skýrslunni, enda var hún sérstaklega pöntuð í því skyni að ófrægja mig.

Barr keypti Pliva og þar með hefði málið allt átt að vera úr sögunni. En skýrslan lifði og skaut upp kollinum í íslenskum fjölmiðlum. Þeir virðast á einhvern hátt telja að óstaðfestar dylgjur og rógur teljist frambærilegt fréttaefni – og það heilum sex árum síðar.

Segjum svo að  ónafngreindur heimildamaður fullyrði við mig að tiltekinn blaðamaður sé  hinn mesti skúrkur og í þokkabót einstaklega leiðinlegur í frítíma sínum. Er þar með komin fram sönnun um persónuleika þess sem rægður er?

Ef svo er, þá er búið að snúa flestu á hvolf.