Rangt er rangt á öllum tungumálum

Þingsályktunartillaga um að þýða beri Rannsóknarskýrslu Alþingis á ensku hefur enn á ný verið lögð fram á Alþingi. Þingmennirnir sem leggja hana fram virðast ekki telja ástæðu til að efast um að allt sé rétt og nákvæmt í skýrslunni. Staðreyndin er sú, að þótt skýrslan sé sjálfsagt að meginefni rétt þá er hún fjarri því að vera óskeikul. Nær væri að þingmennirnir beittu sér fyrir leiðréttingu á rangfærslunum áður en ráðist verður í að þýða þær á önnur tungumál.

Þingflokkur Hreyfingarinnar og einn þingmaður Framsóknarflokksins leggja tillöguna nú fram í þriðja skipti.  Í henni  segir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis geymi „vandaða og nákvæma frásögn af þeim atburðum sem leiddu til hruns íslenska bankakerfisins og góða greiningu á íslensku viðskiptalífi.“ Þessi lýsing er aðeins rétt að hluta til. Vissulega er skýrslan að mörgu leyti upplýsandi plagg. En í henni eru hins vegar ýmsar rangfærslur og mistúlkanir, sem því miður virðast eiga að standa um aldur og ævi.

Þegar eitt ár var liðið frá útgáfu skýrslunnar, í apríl 2011, sendi ég forseta Alþingis ítarlegar athugasemdir mínar við hana. Í inngangi þeirra athugasemda kemur m.a. fram að hvað þau mál varðar sem ég þekki til hafi rannsóknarnefndin ekki leitað sannleikans vel. Ýmis atriði í skýrslunni eru ekki sannleikanum samkvæm og ýmsar einfaldar fullyrðingar eru rangar og byggja ekki á staðreyndum.  Ég óskaði eftir því við Alþingi að athugasemdir mínar yrðu birtar á undirvef Alþingis um rannsóknarnefndina og skýrslu hennar. Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafnaði þeirri ósk. 

Athugasemdir ekki hraktar

Enn hafa athugasemdir mínar ekki verið hraktar að neinu leyti, en eftir sem áður neitar Alþingi að birta þær á sama stað og skýrsluna sjálfa er að finna.

Óskandi væri að sannleikselskandi þingmenn veittu mér liðsinni sitt til að koma athugasemdum mínum á framfæri, svo rangfærslur skýrslunnar standi ekki óhaggaðar. Leiðrétting hlýtur að ganga framar þýðingu á rangfærslum.