Rakalaust svar siðanefndar
Ég spurði siðanefnd Blaðamannafélags Íslands að því í síðasta mánuði hvort rangur framburður fyrir nefndinni hefði einhverjar afleiðingar fyrir þann sem yrði uppvís að rangfærslunum og hvort hún teldi ástæðu til að taka mál upp aftur vegna slíks. Siðanefnd svarar aðeins með því að segja að kvörtun mín sé ekki þess eðlis að hún kalli á endurupptöku málsins. Enginn rökstuðningur fylgir.
Forseti Alþingis og þrír fyrrverandi nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis staðfestu skriflega í lok janúar að rannsóknarnefndin hefði hætt störfum um leið og skýrsla hennar kom út, eða í apríl 2010. Jafnframt staðfestu nefndarmennirnir, Páll Hreinsson, Tryggvi Gunnarsson og Sigríður Benediktsdóttir að þau hefðu ekki svarað fjölmiðlum um efni rannsóknarskýrslunnar. Í svarbréfi Páls og Tryggva er sérstaklega staðfest, að þeir hafi ekki svarað fyrirspurnum Sigrúnar Davíðsdóttur um atriði sem varða mig og viðskipti mín og nefnd eru í skýrslu rannsóknarnefndar.
Þessar yfirlýsingar ganga þvert á þá staðhæfingu Sigrúnar Davíðsdóttur fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins að hún hafi grennslast eftir því hjá „höfundum rannsóknarskýrslunnar“ hver væri „réttur skilningur“ á tiltekinni umfjöllun um mig í skýrslunni.
Eins og sést á svari siðanefndarinnar raskar þetta misræmi ekki ró hennar. „Nefndin telur að ný kvörtun kærenda sé ekki þess eðlis að hún kalli á endurupptöku málsins.“
Svo mörg voru þau orð. Siðanefnd ber að rökstyðja úrskurði sína, en er greinilega spör á rökstuðninginn fyrir öðrum ákvörðunum.
Þá er athyglisvert að sjá, að siðanefnd hefur nú breytt vinnureglum sínum. Talsmaður minn hafði gagnrýnt ítrekað að nefndin færi ekki eftir eigin reglum, t.d. þeirri fortakslausu skyldu að bjóða báðum aðilum að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Fengust þau svör ein að þeirri vinnureglu hefði ekki verið fylgt um langa hríð. Nú ber svo við að í vinnureglum nefndarinnar segir aðeins að siðanefnd geti „leitað nánari skriflegra viðbragða frá aðilum máls eða boðið þeim að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar, telji hún þess þörf.“
Siðanefnd Blaðamannafélag Íslands hefur kosið að fara auðveldu leiðina, létta af sér þeirri skyldu að kalla aðila máls fyrir og staðfesta þess í stað þau geðþóttavinnubrögð sem hún hefur tamið sér. Væntanlega fæst sú ákvörðun hennar aldrei skýrð með rökum.