Nördagleði norðursins

Íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um nýjasta leik CCP, Dust 514.ccp-stor Mbl.is sagði frá Fanfest-hátíð CCP og hafði eftir markaðsstjóra fyrirtækisins að mögulegt sé að „leikurinn verði sá mest spilaði í heimi“,  Vísir fylgdist vel með fréttum af nýja leiknum og fréttir birtust jafnframt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, Stöð 2 sagði af „þjóðhátíð tölvuleikjaspilara“, RÚV lét ekki sitt eftir liggja og svo má lengi telja.

Viðskiptablaðið hefur fjallað töluvert um CCP og nýja leikinn, Dust 514. Í blaðinu sl. fimmtudag var ítarleg umfjöllun um leikinn og sama dag skýrði vefur blaðsins frá því að múgur og margmenni biðu eftir frumsýningu leiksins í Hörpu.

Daginn eftir var skýrt frá því á vef blaðsins að kynning leiksins í Hörpu hefði fallið vel í kramið, en þeirri frétt var fylgt eftir með annarri, þar sem fram kom að leikurinn Eve Online væri enn flaggskip fyrirtækisins. Viðskiptablaðið sagði einnig, að vel heppnuð útgáfa á nýjum leik gæti gæti „skotið fyrirtækinu upp á næsta þrep og auðveldað mjög vöxt þess og viðgang til lengri tíma“.

Það var því engin furða þótt menn væru ánægðir að lokinni kynningunni í Hörpu. Á sunnudag birti Viðskiptablaðið enn eina fréttina og hafði eftir Vilhjálmi Þorsteinssyni, stjórnarformanni CCP, að það væri „í anda CCP að fara ekki troðnar slóðir í leikjahönnun, heldur prófa nýja hluti og jafnvel finna upp nýja tegund af tölvuleikjaspilun“.

Sjálfur lýsti ég því yfir að það hefði alltaf verið gaman að fylgjast með því hve hugmyndaríkt starfsfólk CCP væri. Stundum hefði hvarflað að mér að fólkið hans Hilmars forstjóra hlyti einhvern tímann að rekast á eigin takmörk, en þá bættu þau bara enn í. Ég væri sannfærður um að nýi leikurinn slægi í gegn, eins og annað sem þau hefðu gert.

Miðað við móttökur nýja leiksins, bæði hér á landi og erlendis, er full ástæða til að vera bjartsýnn á vöxt og viðgang CCP. Helsta áhugafólk um tölvuleiki var a.m.k. lukkulegt eftir helgina í Hörpu, ef marka má hinn líflega vef Nörd norðursins, en ég tók mér það bessaleyfi að vísa til þess heitis í yfirskrift pistilsins.  Þar segir m.a.: „Það eru greinilega spennandi tímar framundan hjá CCP og spilurum leikja þeirra. Við hjá Nörd Norðursins vonum svo sannarlega að öll verkefni CCP gangi upp, og óskum við þeim góðs gengis á komandi mánuðum, enda stórir hlutir á sjóndeildarhring CCP.“