Nánast frá blautu barnsbeini!

DV rifjar upp ýmis gömul mál frá fyrri tíð í því eintaki sem kom út í dag. Blaðið seilist hins vegar full langt inn í fortíðina þegar það lætur eins og deilur hafi risið milli mín og núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins þegar ég var vart af fermingaraldri – og að enn séu væringar með okkur! Þetta er að sjálfsögðu algjör firra. Hið rétta er að ég hef  aldrei hitt manninn – leiðir okkar hafa aldrei legið saman.

 

Í DV í dag er rifjað upp að Gunnar Andersen hafi verið forstjóri dótturfélags Hafskips í Bandaríkjunum fram undir miðjan níunda áratug síðustu aldar. Síðan hafi hann hafið störf í Landsbankanum, en látið af þeim störfum þegar við feðgar og Magnús Þorsteinsson keyptum ráðandi hlut í bankanum.

Blaðamaður DV skreytir grein sína með setningum á borð við þessa: „Gunnar á að baki langan og viðburðaríkan feril, þar sem leiðir hans og feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar hafa legið saman með afdrifaríkum afleiðingum.“ Glöggir lesendur DV sjá eflaust að leiðir okkar Gunnar Andersen hafa legið nánast samhliða, allt frá því að ég skreið á menntaskólaaldurinn. Til að tryggja að aðrir – og ógleggri – lesendur blaðsins skilji fléttuna er risafyrirsögninni „Hefur löngum deilt við Björgólfsfeðga“ skellt yfir allt saman.

Fréttin sjálf er skrítin á margan hátt, en allt skýrist þegar flett er aftar í blaðinu því eftir höfðinu dansa limirnir. Yfirskrift leiðara blaðsins er „Draugar Björgólfa“ og þar kveður við sama tón.

Umræddan forstjóra hef ég aldrei hitt á ævinni – leiðir okkar hafa aldrei legið saman, en nákvæmni DV lætur ekki að sér hæða fremur en fyrri daginn.