Með ný og betri spil á hendi

Kaup Watson á Actavis vöktu að vonum mikla athygli í síðustu viku. Nær allir íslenskir fjölmiðlar fluttu ítarlegar og vandaðar fréttir af sölunni. Þar kom skýrt fram, að salan á einu af stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims var stór þáttur í skuldauppgjöri mínu. Ég lýsti því sjálfur svo í viðtölum að nú væri búið að stokka spilin upp og ég væri kominn með ný á hendi. Ég ætla mér að spila vel úr þeim.

 

Kaup Watson á Actavis voru tilkynnt eftir lokun markaða í New York á miðvikudag, eða  kl. 20 að íslenskum tíma. Sama kvöld birtu íslenskir netmiðlar tíðindin og skýrt var frá þeim í fréttatímum útvarps og sjónvarps og í prentmiðlum daginn eftir. Helstu fréttaveitur heims skýrðu einnig frá tíðindunum, þar á meðal Reuters, Associated Press, Dow Jones og Bloomberg, en fréttir þeirra rötuðu í marga stærstu fjölmiðla heims.  

Meginatriðin komust vel til skila: Þetta voru góð tíðindi fyrir Actavis og Watson, enda verður sameinað fyrirtæki 3. stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og samlegðaráhrifin eru umtalsverð. Þetta voru líka góð tíðindi fyrir lánardrottna, jafnt Deutsche Bank sem íslensku bankana, enda rennur  stærsti hluti kaupverðsins upp í skuldir, í samræmi við skuldauppgjör mitt. Og þetta voru góð tíðindi fyrir mig sem helsta eiganda Actavis. Ég mun eignast hlut í sameinuðu fyrirtæki þegar fram líða stundir, en jafnframt þokast töluvert nær því að gera upp allar skuldir mínar og fjárfestingarfélags míns, Novators.

Í tilefni þessara tímamóta birti ég stuttan pistil á heimasíðu Actavis. Þar lýsti ég stolti mínu yfir að hafa tekið þátt í ævintýralegri uppbyggingu fyrirtækisins á undanförum 13 árum og sagði það álit mitt að sameiningin við Watson yrði félaginu enn til hagsbóta. Actavis hefur ávallt verið þeirrar gæfu aðnjótandi að laða til sín hæfileikaríkustu starfsmenn sem völ er á og nú er svo komið að hjá fyrirtækinu starfa um 10.000 manns í rúmlega 40 löndum.

Þá lýsti ég því yfir að ég hefði óbilandi trú á fyrirtækinu og framtíð þess. Þess vegna hefði ég kosið að fá greiðslu frá Watson í formi hlutabréfa, enda væri ég sem fyrr sannfærður um að Actavis muni áfram skipa sér í framvarðasveit stærstu lyfjafyrirtækja heims.