Margur heldur mig sig

DV birti á mánudag grein um að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir hafi farið fram á vitnamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann telur ástæðu til að kanna hvort átt hafi sér stað blekkingar um eignarhaldið í Landsbankanum. DV gengur lengra og fullyrðir með afar ósmekklegum hætti í fyrirsögn sinni að um blekkingar sé að ræða.  Ekki að það þurfi að koma á óvart á þeim bænum frekar en fyrri daginn. Hafa skal það sem betur selur.  

Það er mér nokkur ráðgáta hvers vegna Vilhjálmur og félagar leggjast í þá ófrægingarherferð sem umrædd málaferli augljóslega eru. Ein skýringin gæti verið sú að þeir vilji kynda bálið og láta helvítis útrásarvíkinginn hafa það.  Krossferðinni skuli haldið áfram í nafni réttlætisins, en því miður gleymdist í þetta sinn að bjóða réttlætisgyðjunni með í för. Þarna eru á ferð menn sem slá sig til riddara í nafni hefndar og eru reknir áfram af eigin fordómum og andúð á öllum sem tengdust hinum föllnu viðskiptabönkum, a.m.k. mér.  Þeir treysta því að almenningur dæmi fyrir ásakanir einar, hversu langsóttar sem þær eru, og engu skipti hver niðurstaða dómstóla verður. 

Krossferðina leiðir nú Vilhjálmur, maður sem hefur áður leitað til dómstóla með ásakanir á hendur mér.  Í því máli ásakaði hann mig og stjórn Straums um að hafa brotið á rétti sínum.  Mikið var gert úr því máli í fjölmiðlum er það kom fram, en heldur minna fór fyrir því þegar ég og stjórn Straums vorum sýknuð fyrir rúmum tveimur árum í Hæstarétti.  Þá hef ég heyrt að að baki málaferlunum séu menn sem hafa horn í síðu mér og vilja valda mér sem mestum persónulegum skaða. Við fyrstu sýn virðist sem Vilhjálmur krossfari sé mikill happafengur fyrir ófrægingarherferð þeirra og veiti henni trúverðugleika.

Að leppa hlutafjárkaup

Þegar kafað er dýpra sést hversu kaldhæðnislegt það er að Vilhjálmur hafi áhyggjur af því sem hann telur vera blekkingar um eignarhald á Landsbankanum. Löngu áður en ég eignaðist hlut í Landsbankanum, eða árið 1998, gerði Vilhjálmur Bjarnason tilboð í hlut í Landsbanka. Hann sagðist þá fara fyrir hópi  „venjulegra sparifjáreigenda“. Síðar kom í ljós að þessir „venjulegu sparifjáreigendur“ voru í raun Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, sem keypti jafnframt hlut í bankanum undir eigin nafni á sama tíma.

Um þessi viðskipti  ritaði Morgunblaðið: „Vilhjálmur segir að rétt hafi þótt að halda því leyndu að EBÍ stæði að baki tilboðinu á meðan félagið væri að auka við hlut sinn í félaginu á almennum markaði. Að öðrum kosti hefði hætta verið á að verð bréfanna hefði hækkað og þau ekki fengist á eins hagstæðu verði.“ Bankaeftirlit Seðlabankans, sem nú heitir Fjármálaeftirlitið, sá ástæðu til að kanna þessi hlutabréfakaup sérstaklega á sínum tíma. Yfirlögfræðingur eftirlitsins tók fram að það væri „afar óheppilegt að villa um fyrir markaðnum.“ 

Á þessum tíma var hugtakið „að leppa einhvern“ ekki á hvers manns vörum og fljótt fennti yfir kaup Vilhjálms. Síðar komu fram ýmis dæmi um leppa og almannarómur fordæmdi þá leynd og blekkingu sem fylgdi slíkum viðskiptum.

Þeir sem standa að ófrægingarherferðinni voru kannski að leita að manni með reynslu þegar þeir fundu Vilhjálm? 

 Hvað sem því líður þá virðist ljóst að herferðinni verður haldið áfram og lítið við því að gera annað en að taka til varna á ný og vona að almenningur kynni sér málavexti en láti ekki glepjast af upphrópunum fyrirsagna. Öllu verra finnst mér að riddararnir skuli draga almenning inn í persónulega herferð sína með beinum hætti með innantómum loforðum um skaðabætur þegar þeir vita að engu slíku er fyrir að fara.