Lítill áhugi á framhaldslífi rannsóknarnefndar

Fjölmiðlar virðast fæstir velta því fyrir sér, hvort rannsóknarnefnd Alþingis sé enn að störfum og veiti upplýsingar þeim sem hugkvæmist að leita til hennar. Hljóta fjölmiðlar þó margir að vilja bera ýmislegt undir nefndina, fái þeir færi á. Ég upplýsti hér á þessum vef mínum í byrjun vikunnar að ég hefði óskað svara frá rannsóknarnefndinni og forseta Alþingis um störf nefndarinnar frá því í apríl 2010, þegar skýrsla hennar kom út. Ég hafði staðið í þeirri trú að nefndin hefði látið af störfum þá, en þrívegis verið fullyrt við mig að nefndin hafi veitt nánari skýringar á skýrslu sinni eða lagt blessun sína yfir útreikninga blaðamanna.


 

Nú mætti ætla að þetta þættu forvitnilegar upplýsingar, enda var ekki annað að ráða af fjölmiðlaumfjöllun sl. 21 mánuð en að allir væru þeirrar sannfæringar að rannsóknarnefndin hefði hætt störfum í apríl 2010. Þá þykir mér einsýnt að nánari skýringar rannsóknarnefndarinnar á skýrslunni séu enn frekari rök fyrir þeirri kröfu minni að athugasemdir mínar við skýrsluna verði birtar á vef Alþingis. Þar með geta allir kynnt sér þær um leið og þeir kynna sér skýrsluna sjálfa – og um leið eru hægari heimatökin fyrir rannsóknarnefndina, sem tekur án efa tillit til þeirra leiðréttinga, sem ég hef fært fram.

Fréttavefur Morgunblaðsins sagði stuttlega frá bréfi mínu á mánudaginn og slíkt hið sama gerði fréttavefur DV.  Á Viðskiptablaðinu var málið einnig tekið upp í gær, í athyglisverðri fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar.  Andrés ritar:

Það leiðir hugann að Björgólfi Thor Björgólfssyni, sem veltir upp þeirri athyglisverðu spurningu á vef sínum btb.is hvort verið geti að Rannsóknarnefnd Alþingis sé enn að störfum. Sem kunnugt er lauk nefndin störfum í apríl 2010 og hafði formaður hennar á orði að nefndarmenn myndu ekki ræða störf sín frekar. Björgólfur bendir á að fram hafi komið að Sigrún Davíðsdóttir og breska blaðið Observer hafi a.m.k. þrívegis getað leitað nánari skýringa Rannsóknarnefndar á Rannsóknarskýrslunni góðu. Sjálfur hafi hann engan kost fengið á að koma athugasemdum á framfæri við nefndina eða skýrslu hennar.

Þetta mál er athyglisvert að mörgu leyti, en það er merkilegt að fjölmiðlar hafi ekki tekið það upp að því leyti, sem það varðar þá, því það er vitaskuld ekki nógu gott ef Rannsóknarnefndin lifir en svarar bara erindum frá London og öðrum fjölmiðlum ekki.“

Aðrir fjölmiðlar hafa ekki greint frá málinu, a.m.k. ekki að svo stöddu, því mér þykir sennilegt að þeir muni greina frá svari nefndarinnar og forseta Alþingis þegar það berst.