Landsbankinn borgar Icesave

Slitastjórn Landsbankans hefur þegar greitt 677 milljarða króna af forgangskröfum í þrotabú bankans. Upphæðin samsvarar því sem Íslendingar hefðu átt að greiða fyrir síðasta Icesavesamninginn sem gerður var við Breta og Hollendinga.

Vísir.is greindi frá þessu í gær og vitnaði til heimasíðu slitastjórnar Landsbankans. Þar kemur fram að í þessum mánuði hafi 82 milljarðar króna verið greiddar Icesave kröfuhöfum. Fyrstu greiðslurnar voru inntar af hendi hinn 2. desember í fyrra og námu um 432 milljörðum króna. Í maí s.l. voru 162 milljarðar króna greiddir og því hefur slitastjórnin greitt út um 677 milljarða króna samanlagt. Sú upphæð svarar til um 50% af forgangskröfum.

Vísir.is ritar: „Upphæðin samsvarar því sem Íslendingar hefðu átt að greiða fyrir síðasta Icesavesamninginn sem gerður var við Breta og Hollendinga, það er samninginn sem Lee Buchheit samdi fyrir Íslands hönd. Þeim samningi eins og þeim fyrri var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Frá upphafi hef ég haldið því fram, að eignir Landsbankans dygðu fyrir Icesave. Ég benti fyrst á þetta í viðtali við fréttaskýringarþáttinn Kompás strax eftir hrun, eða 27. október 2008 og sagði nauðsynlegt að halda vel utan um eignir bankans til að þær gætu gengið upp í Icesave. Þetta hefur gengið eftir, enda hafa reglulega borist fréttir af síbatnandi stöðu þrotabúsins. Í þessum þætti varaði ég líka við, að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur og þar reyndist ég einnig sannspár, því miður.

Á meðan enn er hrópað um Icesave fá allir milljarðarnir, sem soguðust í hítina í Sjóvá, sparisjóðunum og Seðlabanka, litla athygli. Það hentar enn að hrópa í móðursýki um skuldirnar sem leggjast á börnin og barnabörnin.

Til hvers var þá deilt?

Einstaka sinnum hefur kviknað von um að fólk sæi í gegnum hræðsluáróðurinn. Í maí á síðasta ári var skýrt frá því að bú Landsbankans ætti allt að 99 prósent upp í forgangskröfur. Áætlaðar endurheimtur vegna eignasafnsins voru um 1.245 milljarðar króna en heildarupphæð forgangskrafna nemur 1.319 milljörðum.

Þessar fréttir komu flatt upp á marga. Álitsgjafinn Egill Helgasonritaði: „Maður er eiginlega furðu lostinn eftir tvær Icesave atkvæðagreiðslur – og einhver rosalegustu átök í íslenskri stjórnmálasögu.

Var þá bara alltaf nóg fyrir þessu í þrotabúi Landsbankans? Og varla neinn kostnaður sem fellur á þjóðina.

Til hvers var þá deilt?“

 „Til hvers var þá deilt?“ spyr álitsgjafinn réttilega. Hverjir sáu sér hag í því að gera ógnvekjandi Grýlu úr Icesave? Getur verið að það hafi hentað ýmsum stjórnmálamönnum vel að sameina þjóðina í ofsafengnum viðbrögðum við sameiginlegum óvini? Er ekki hugsanlegt, að ýmis önnur mál hafi fallið í gleymsku og dá á meðan menn froðufelldu um þá þrælakistu sem biði íslenskra barna?