Kveinstafir úr hörðustu átt
Undarleg er sú árátta sumra manna að kveinka sér hátt og í hljóði undan eðlilegum viðskiptaháttum. Þannig virðast þeir á einhvern hátt telja óeðlilegt að þeir standi reikningsskil gjörða sinna, jafnvel þótt þeir hafi farið mikinn og lagt gríðarlegar upphæðir af fé annarra undir í viðskiptum sínum. Þegar kröfuhafar, sem lánuðu þeim fyrir umsvifunum, fara fram á endurgreiðslu þeirra lána og ganga svo að veðum sínum heitir það að „allt hafi verið hirt af þeim“. Þetta viðhorf er ef til vill skiljanlegt þegar haft er í huga að ekki voru þessir sömu menn reiðubúnir til að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir skuldbindingum sínum. Það er auðvitað skýringin á því að þeir eru ekki sjálfir gjaldþrota þrátt fyrir gríðarlegan skuldahala fyrirtækja sem þeir stýrðu um tíma.
Í viðtali í tímartinu Mannlífi við Jóhannes Jónsson verður honum tíðrætt um að hann og sonur hans ekki fengið sömu meðferð og aðrir eftir hrunið 2008. Allt hafi verið hirt af þeim og þær eignir hafa síðan runnið til að greiða Icesave! Þessi vitleysa hefur heyrst áður, en skánar ekkert við endurtekningar.
Landsbankinn hafði, ólíkt því sem sums staðar tíðkaðist, tekið veð fyrir lánveitingum sínum til Baugs. Baugur gat ekki greitt og Landsbankinn gekk að veðunum. Iceland-verslanakeðjan var með réttu eign Landsbankans, en ekki þeirra sem skulduðu fyrirtækið að fullu, eftir að hafa í þokkabót skafið allt fé út úr því. Af þeim æfingum öllum hafa verið sagðar ítrekaðar fréttir, til dæmis þessi um hvernig 55 milljarðar króna runnu sem arðgreiðslur frá Iceland til aflandsfélagsins Pace. Á sínum tíma, tæpum tveimur mánuðum fyrir hrun, var því haldið fram að Iceland væri gullgæs og haft eftir helsta eigandanum að Iceland væri nánast banki, því hægt væri að taka peninga reglulega út úr félaginu! Eftir hrun kom svo í ljós að eigendur höfðu selt fyrirtækið til annars félags, sem þeir áttu sjálfir, á uppsprengdu verði og tekið lán fyrir kaupunum, en hreyktu sér jafnframt af því að hafa slegið met í „hagnaði“. Þeir keyptu fyrirtækið sem sagt af sjálfum sér með skuldsettri yfirtöku, en hrópa nú um það yfirgengilega ranglæti að bankinn sem lánaði þeim fé skuli hafa tekið gullgæsina af þeim. Það er furðulegt að menn skuli sjálfir kalla eftir upprifjun á þessum viðskiptaháttum, en verði þeim að góðu.
Sú staðreynd, að tekist hafi að selja fyrirtækið á góðu verði nokkrum árum eftir að fyrri eigendur urðu að hætta öllum afskiptum af því, segir auðvitað ekkert til um viðskiptasnilld fyrri eigenda.
Það er ekki hægt að gera upp skuldir nema raunveruleg verðmæti liggi að baki. Sjálfum þykir mér fullkomlega óeðlilegt að menn geti gengið frá viðskiptum án nokkurra persónulegra eftirmála ef og þegar allt fer á versta veg. Annað hvort búa menn svo vel að hafa raunverulegar eignir til að byggja skuldauppgjör sitt á eða við þeim blasir gjaldþrot. Það eru eðlilegir viðskiptahættir. Ekki verður séð að sú grundvallarregla eigi við um hinn kvartsára kaupmann, sem nýlega seldi hlut sinn í verslunum í Færeyjum og ætlar að hasla sér völl á þeim vettvangi á Íslandi á nýjan leik. Og mun sjálfsagt auglýsa þau umsvif sín í sjónvarpi, útvarpi, vefmiðli og dagblaði í eigu 365.