Í tilefni af fréttaflutningi af stefnu slitastjórnar Landsbankans.

Í stefnu slitastjórnar Landsbankans á hendur stjórnendum og bankaráðsmönnum bankans er fjallað um eignarhald á bankanum. Þar er því haldið fram að Samson hafi í raun ráðið 73% í bankanum. Enginn fótur er fyrir þessum málflutningi slitastjórnarinnar, sem hefur ákveðið að krydda stefnu á hendur nokkrum einstaklingum með þessum fullyrðingum. Stefnan og sú atvikalýsing sem þar kemur fram ber með sér að stefnan er málatilbúnaður eins aðila þar sem reynt er að draga upp mynd sem þjónar hans hagsmunum.  Slíkar lýsingar þurfa á engan hátt að endurspegla rétta mynd og ætti umfjöllun fjölmiðla að taka mið af því.

Slitastjórnin hlýtur að vita, að Landsbankinn í Lúxemborg hélt utan um hlutabréfaeign fjölda einstaklinga og fyrirtækja og fráleitt að halda því fram að sú hlutafjáreign sem skráð var hjá bankanum hafi lotið yfirráðum Samsonar.  Slitastjórnin ætti jafnframt að vita, að bréf sem bankinn átti í sjálfum sér og bréf í eigu félaga sem héldu utan um kauprétt starfsmanna eru Samson algerlega óviðkomandi.

Þá fer slitastjórn mikinn þegar hún fjallar um stórar útlánahættur Landsbankans. Eftir yfirtöku mína og félaga á mínum vegum á Actavis sumarið 2007 var ég að sjálfsögðu tengdur við Actavis í bókum bankans og ágreiningur bankans og FME þar með úr sögunni. Slitastjórnin nefnir þá staðreynd ekki.

Loks skal tekið fram að fréttaflutningur RÚV um að yfirtökuskylda hafi myndast þegar eignarhlutur Samsonar í Landsbankanum fór yfir 40% byggir ekki á staðreyndum. Samson var frá upphafi yfir því marki og fékk undanþágu frá 40% reglunni. Yfirtökuskylda hefði myndast við 45%, en yfir þau mörk fór Samson aldrei.