Hvert fór féð frá Seðlabanka?

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði fyrir Landsdómi í morgun að fé sem Kaupþingi hefði verið lánað gegn veði í danska bankanum FIH hefði farið annað en það átti að fara. Nauðsynlegt er að varpa skýrara ljósi á þessa staðhæfingu. Að sama skapi er nauðsynlegt að skýra hvers vegna sú ákvörðun var tekin innan Seðlabankans að lána Kaupþingi 500 milljónir evra skömmu fyrir hrun haustið 2008 og hafna jafnframt umsókn Landsbankans.

Fréttavefur RÚV skýrði frá því í morgun að lánið til Kaupþings, sem nam um 82,5 milljörðum króna að núvirði, hefði „farið annað en það átti að fara“, eins og vefurinn hefur eftir fyrrverandi forsætisráðherra.  Á sama tíma og þetta fé rann til Kaupþings var Landsbankanum neitað um lán að svipaðri upphæð til að reyna að liðka fyrir flutningi á Icesave í breska lögsögu.  Aldrei hefur verið skýrt hvers vegna þessi ákvörðun var tekin, hvers vegna þessi „undarlegasti og óskiljanlegasti gjörningur Hrunsins“ var framkvæmdur, eins og þekktur álitsgjafi hefur nefnt þessa ákvörðun.

Vonandi verður mál þetta skýrt til fullnustu fyrir Landsdómi.