Hver er óreiðumaðurinn?
Í Kastljósi þann 7.október 2008 sagði þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans þau fleygu orð að Íslendingar myndu ekki borga „skuldir óreiðumanna“. Orðin lét hann falla degi eftir að hafa afhent Kaupþingi nær allan gjaldeyrisforða landsins, 500 milljónir evra, án þess að formleg samþykkt bankastjórnar hafi legið fyrir eða lánasamningur gerður. Tapið vegna þeirrar ákvörðunar lendir á íslenskum skattgreiðendum. Þeir verða að borga fyrir óreiðuna. Skuldir hvaða óreiðumanns tekur ríkið þar með á sig, bótalaust?
Nú virðist loks hylla undir að upplýst verði hvers vegna Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra, tæpa 84 milljarða króna að núvirði, hinn 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett. Þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans upplýsti fyrir Landsdómi að hann hefði þá verið fyrir löngu búinn að átta sig á að bankinn myndi falla. Sami maður hafði varað ríkisstjórnina við því viku fyrr að allt bankakerfið myndi falla. Samt fékk Kaupþing lánið.
Lánveitingin var rædd nýverið á sameiginlegum fundi efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis. Samkvæmt fréttum upplýsti Seðlabankinn nefndarmenn um að ekki hafi legið fyrir formleg samþykkt bankastjórnar Seðlabankans og ekki hafi verið útbúinn lánasamningur vegna þessarar lánveitingar.
Slík vinnubrögð eru með miklum ólíkindum og ekki ofsagt að þau beri vitni um óreiðu í rekstri bankans. Stór hluti gjaldeyrisforðans, fjármunir almennings, var lánaður til eins banka án þess að tekin væri formleg ákvörðun um slíkt eða rétt skjöl útbúin af því tilefni. Tapið vegna þeirrar ákvörðunar lendir á íslenskum skattgreiðendum. Þeir verða að borga fyrir þá óreiðu, en hins vegar hefur þegar verið staðfest að almenningur mun ekki gjalda fyrir Icesave.
Slitastjórnir gömlu viðskiptabankanna lögsækja nú stjórnendur þeirra fyrir gjörninga sem fullgildir lánasamningar giltu um og voru gerðir í góðri trú. Svo rík er ábyrgð stjórnenda bankanna talin vera á þeim bæjum.
Nú vilja þingmenn rannsaka málið til hlítar. Þeir hljóta m.a. að kalla eftir upptöku, sem fréttir greina að muni vera til í Seðlabanka, af samtali þáverandi formanni bankastjórnar og þáverandi forsætisráðherra þar sem þeir ræða lánveitinguna.