Hús án lífs er einskis virði

Yfirskrift þessa pistils eru orð að sönnu. Hún er fengin úr Morgunblaðinu um helgina og var fyrirsögn á grein (sjá hér og hér) um fyrirhugaðar endurbætur á Fríkirkjuvegi 11. Áætlað er að hefja lagfæringar á húsinu að utan í sumar og í kjölfarið að ráðast í viðgerðir og nauðsynlegar breytingar innan dyra.  Þetta merka og fallega hús gengur þá vonandi í endurnýjun lífdaga.

 

Húsið keypti ég af Reykjavíkurborg fyrir nær fjórum árum. Ég gerði mér grein fyrir að nauðsynlegt yrði að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar viðgerðir á húsinu, enda er það rúmlega aldargamalt og löngu kominn tími á gagngerar endurbætur.

Húsið er friðað að utan og viðgerðir taka að sjálfsögðu mið af því. Þá munu arkitektar einnig leggja mikla áherslu á endurbætur innanhúss verði í fullu samræmi við menningarsögulegt gildi hússins, en þær breytingar munu jafnframt tryggja að húsið nýtist sem skyldi.

Á aðalhæð hússins verða ráðstefnu- og veislusalir og á veggjum þeirra verður saga langafa míns, athafnamannsins Thors Jensens, og þessa glæsihýsis hans rakin í máli og myndum. Í kjallara verður m.a. eldhús, fatahengi og snyrting, en á efri hæð hússins verður innréttuð íbúð.

Forstöðumaður Húsafriðunarnefndar ríkisins sagði í fréttum á dögunum að stiginn sem liggur milli 1. og 2. hæðar hússins væri „eitt best varðveitta og fallegasta stigarými sem við eigum á þessu landi.“ Tillögur arkitekta gera ráð fyrir að stiginn verði fluttur um eina hæð, þannig að hann muni liggja milli kjallara og 1. hæðar, en útlit hans haldist með öllu óbreytt. Þannig verður stigarýmið varðveitt.

Breytingarnar verða allar afturkræfar, þ.e. hægt verður að færa húsið aftur í fyrra horf síðar. Það gildir einnig um færslu stigans.

Ég vona að mér auðnist að færa húsið, þessa miklu borgarprýði, til fyrri vegs og virðingar.