Horbikkja Seðlabankans

„Útlit er fyrir að Eignasafn Seðlabankans (ESÍ) muni ríða horbikkju frá sölunni á bankanum FIH Erhversvbank í Danmörku“ að því er fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu á fimmtudag. Sú ákvörðun Seðlabankans að lána Kaupþingi 500 milljónir evra skömmu fyrir hrun haustið 2008 en hafna umsókn Landsbankans hefur aldrei verið skýrð. Og sífellt kemur betur í ljós að veðið að baki dugir engan veginn til að tryggja endurgreiðslu. Þegar hafa tugir milljarða króna verið afskrifaðir.

 

Í ágætri frétt á vef Viðskiptablaðsins og ítarlegri fréttaskýringu í blaðinu sjálfu segir að seljendalán upp á sjötíu milljarða króna, sem Seðlabankinn veitti þegar FIH bankinn var seldur til nýrra eigenda haustið 2010, gæti mögulega tapast að öllu leyti. Þegar hafi 20-30 milljarðar verið afskrifaðir.

Aðfararnótt 6. október 2008 var ákveðið að Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra, sem nú eru um 82,5 milljarðar króna. Á sama tíma var Landsbankanum neitað um lán að svipaðri upphæð til að reyna að liðka fyrir flutningi á Icesave í breska lögsögu.  Aldrei hefur verið skýrt hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Þáverandi fjármálaráðherra, sem ritaði bók um hrunið og aðdraganda þess, gat ekki einu sinni upplýst þetta, ritaði aðeins í bók sína að hann hefði ekki vitað „smáatriðin í þessu“ og að ákvörðunin hefði ekki verið borin undir hann, en tók þó fram að von hefði verið á „einhverjum peningum“ inn í Kaupþing. Ekki er að furða þótt þekktur álitsgjafi kalli þetta einhvern „undarlegasta og óskiljanlegasta gjörning Hrunsins.“

Lán Seðlabankans til Kaupþings var „tryggt“ með veði í danska bankanum FIH.  Gengi þess banka hefur verið í frjálsu falli, hlutur Seðlabanka rýrnað jafnt og þétt og gæti tapast að fullu. Eftir situr sú krafa, að skýrt verði hvers vegna ákveðið var að lána Kaupþingi 500 milljónir evra. Hvaða forsendur lágu þar að baki? Hvaða gögn voru lögð fyrir Seðlabanka, svo menn þar á bæ gætu tekið upplýsta ákvörðun um að verja tugum milljarða í þágu Kaupþings?