Góður samningur í höfn

Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson hefur gengið frá samningum um kaup áWPI-Actavis-Signing-2 Actavis. Kaupverðið er samtals 4,25 milljarðar evra, eða um 700 milljarðar króna. Lang stærsti hluti þeirrar upphæðar rennur til lánardrottna Actavis og minna. Þar er Deutsche Bank stærstur en Landsbankinn, Straumur og Glitnir áttu einnig verulegra hagsmuna að gæta. Þessir samningar eru öllum aðilum hagstæðir. Í samningunum felst að fjárfestingarfélag mitt Novator mun eignast hlut í sameinuðu félagi Watson og Actavis. Stærð þess hlutar ræðst af afkomu Actavis. Eftir kaupin verður sameinað fyrirtæki þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims með öflugar starfsstöðvar og hæft starfsfólk. Hér er tilkynning sem birt var í Kauphöllinni í New York vegna þessara viðskipta.

 

WPI-Actavis-Signing-2

 

Samningar í höfn Fabrizio Campelli, yfirmaður fjárfestinga Deutche Bank, Paul Bisaro, forstjóri Watson og Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novator, undirrita samninga í New York í gær um kaup Watson á Actavis.

 

Saga Actavis er ótrúleg. Það breyttist í fyrstu úr litla íslenska félaginu Pharmaco, lyfjaheildsölu á Íslandi með veltu upp á 3,5 milljarða kr. yfir í alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með góða fótfestu í Austur-Evrópu.  Í dag er félagið komið í röð stærstu félaga í heiminum á samheitalyfjamarkaði, með um 10 þúsund starfsmenn í 40 löndum og veltu upp á 350 milljarða króna. Þetta hefur tekist með framtakssemi og framsýni.

Þegar Actavis var tekið af markaði árið 2007 lagði ég fram einn milljarð evra, eða um 170 milljarða króna, í eigin fé. Síðar tók ég á mig enn frekari persónulegar skuldbindingar þegar á reyndi í rekstri félagsins. Þegar öll kurl verða komin til grafar er ljóst að ég hef tapað umtalsverðum fjárhæðum. Vangaveltur í sumum fjölmiðlum um að ég „hagnist“ um tugi milljarða við söluna á Actavis eru því ekki réttar. Það var löngu orðið ljóst að ég myndi tapa miklu á Actavis, en það þýðir ekkert að horfa sífellt í baksýnisspegilinn. 

Actavis er afar gott félag og nokkur samheitalyfjafyrirtæki höfðu vissulega áhuga á að kaupa það. Ég átti frumkvæði að samningum við Watson, stýrði þeim í höfn og er sáttur við niðurstöðuna. Það lá beint við að kanna áhuga Watson á kaupum enda fjársterkt félag með öflugan rekstur og metnaðarfull markmið.  Ég er sammála framtíðarsýn stjórnenda Watson og er sannfærður um að þetta sé rétt skref fyrir Actavis.

Skuldauppgjör á áætlun

Salan á Actavis  er mikilvægur þáttur í skuldauppgjöri mínu við lánardrottna sem skýrt var frá í júlí 2010. Ég hef margsinnis bent á að það er ekki hægt að gera upp skuldir nema raunveruleg verðmæti liggi að baki. Actavis er gríðarmikið fyrirtæki  með starfsemi um allan heim og það var alltaf ljóst að það tæki tíma að koma fyrirtækinu í verð.  Til allrar hamingju höfðu lánardrottnar allir skilning á því að ekki mætti flana að því verkefni og lögðu það í mínar hendur.  Þess vegna fá þeir háar fjárhæðir endurgreiddar nú. Það er enginn efi í mínum huga að salan til Watson tryggir bestu hugsanlegu útkomu, öllum í hag. Ég hef alltaf stefnt að því að ljúka skuldauppgjöri mínu með sóma og salan á Actavis er mikilvægur áfangi á þeirri leið. Uppgjörið gengur samkvæmt áætlun og eftir því samkomulagi sem náðist í júlí 2010.

 

Upphæðin sem rennur til íslenskra banka við söluna á Actavis hleypur á tugum milljarða króna. Þeir tóku þátt og fylgdust mjög náið með söluferlinu og ég veit ekki betur en þeir séu sáttir við sinn hlut.

Síðari hálfleikur

Salan á Actavis markar tímamót. Ég mun eignast hlut í Watson og hef mikla trú á því félagi og samheitalyfjamarkaðinum á næstu árum.  Þá mun ég áfram sinna fjárfestingum Novator í fjarskiptafyrirtækinu Play í Póllandi, sem er fjórða stærsta fjarskipafyrirtækið þar í landi með yfir 7 milljón viðskiptavini. Ég mun eflaust verja stórum hluta tíma míns í þessi tvö félög.  En ég mun hafa augun opin fyrir öðrum áhugaverðum tækifærum, hér eftir sem hingað til.  Þá hef ég áður sagt að ég muni halda áfram að hlúa að þeim fyrirtækjum á Íslandi, þar sem ég á hagsmuna að gæta. Það eru CCP, Nova og gagnaver Verne. Ég hef hins vegar engin áform um frekari fjárfestingar á Íslandi. 

Hér er tilkynning sem send var frá Novator vegna þessara viðskipta.