Gamalt tros um gengisvarnir

DV ber gamalt tros og illa lyktandi á borð fyrir lesendur sína í dag – og ekki í fyrsta skipti. Síendurteknar upphrópanir blaðsins um stöðutöku mína og félaga minna gegn krónunni hafa ítrekað verið hraktar. Þetta veit DV og tekur því þann kostinn núna að leita engra umsagna um skrifin og nefnir ekki hálfu orði allar fyrri athugasemdir mínar. Það þarf reyndar ekki að koma á óvart, enda fékk blaðið nýlega þá umsögn í dómi Hæstaréttar að skrif þess væru „smekklaus“ – og ljóst að þar tók Hæstiréttur varlega til orða.

Upphrópanir DV lúta enn sem fyrr að meintri stöðutöku gegn íslensku krónunni. Blaðið gerir ekki, fremur en fyrri daginn, greinarmun á stöðutöku og eðlilegum gengisvörnum. Hið fyrra er árás, hið síðara sjálfsvörn. Það er ekki stöðutaka gegn gjaldmiðli að gera gjaldeyrisskiptasamning þegar lán eru tekin í einni mynt en veð á móti eru í annarri. DV beinir spjótum sínum núna að Samson. Ég mun senda blaðinu sérstaka athugasemd vegna þessa, með ósk um að hún verði birt í næsta tölublaði, miðvikudaginn 24. október. Sú athugasemd verður einnig birt hér á vefnum þegar þar að kemur.  

Gengisvarnir eru ekki árás

Til nánari skýringar á gengisvörnum, sem koma árásum á gjaldmiðil ekkert við, er rétt að taka fram eftirfarandi: Samson stóð ávallt með þeirri sannfæringu sinni að íslenskar eignir bæri að fjármagna í íslenskum krónum, þrátt fyrir óhóflegan vaxtakostnað.  Þar sem félagið sótti sitt lánsfé fyrst og fremst á erlenda markaði beitti félagið afleiðusamningum til að verja gengisáhættu sína.  Slíkt gera félög um allan heim. Í þessu fólst ekki stöðutaka gegn krónunni – þvert á móti.  Þegar krónan veiktist sem mest á árinu 2008 dró félagið úr áhættuvörnum sínum samhliða lækkandi eignaverði – keypti sem sagt krónur og seldi gjaldeyri.  Þar með er ómögulegt að álykta að aðgerðir félagsins hafi haft áhrif á fall krónunnar. Lesendum til nánari glöggvunar er rétt að vísa á þessa skýringarmynd, sem segir meira en mörg orð.  Af henni er ljóst að Samson seldi alls ekki krónur þegar gengið féll, heldur keypti þær, öfugt við marga aðra. DV hefur aldrei séð ástæðu til að birta þessa mynd.

Stöðutaka bankanna með og á móti krónunni

Þá er upplýsandi að skoða hvernig bankarnir keyptu og seldu gjaldeyri á árunum fyrir hrun. Árin 2007 og 2008 keypti Kaupþing erlendan gjaldeyri fyrir 2.200 milljarða króna, fyrir bankann og hluthafa. Landsbankinn seldi á móti fyrir 2.280 milljarða króna og afganginn, um 80 milljarða króna, keypti Glitnir. Þetta kemur fram í heildarsamantekt á viðskiptum íslensku bankanna með gjaldeyri á þessum tíma. Rannsóknarnefnd Alþingis um hrunið ályktar í skýrslu sinni á eftirfarandi hátt:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.

Sú staðreynd að afleiddur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaðnum fór niður í núll í mars 2008 var skýrt merki um þann verulega skort á erlendum gjaldeyri sem til staðar var hér á landi. Boðið var upp á að ávaxta evrur nánast á krónuvöxtum sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum átt að leiða til mikils innflæðis gjaldeyris. Þetta varð ekki. Krónan féll á hinn bóginn þegar erlendir aðilar tóku krónur sínar í auknum mæli út úr bönkunum þar sem afleiddir vextir á þeim voru orðnir þeir sömu og evruvextir. Þessum krónum var síðan skipt í evrur, sem leiddi til falls íslensku krónunnar. Seðlabanki Íslands reyndi að stemma stigu við þessari þróun með útgáfu innstæðubréfa og telja má líklegt að það hafi að einhverju leyti spornað við frekara falli krónunnar.“ (Kafli 13.7. Gjaldeyrismarkaður.)

Í skýrslunni rannsóknarnefndarinnar kemur fram að Exista hafi hagnast um 80 milljarða króna á stöðutöku gegn krónunni og eftir að dómur féll í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggðra bílalána var fjallað um það sérstaklega í fréttum að Exista tók stöðu gegn krónunni á sama tíma og dótturfélag þess, Lýsing, hélt gengistryggðum bílalánum að viðskiptavinum sínum.

Ég geri mér litlar vonir um að DV láti af þeim „smekklausa“ sið sínum að endurbirta gömul ósannindi æ ofan í æ. Sjálfur mun ég aldrei þreytast á að leiðrétta vitleysuna, sem blaðið telur sér sæmandi að bera á borð fyrir lesendur sína.