Enn sækir Nova fram

Nova hagnaðist um 374 milljónir króna í fyrra og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta var rúmur hálfur milljarður króna. Nova hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt frá því að fyrirtækið tók til starfa og er nú með 26% markaðshlutdeild á fjarskipamarkaði. Viðskiptavinum félagsins fjölgaði um 17 þúsund í fyrra.

 

Fréttablaðið skýrði frá góðri afkomu Nova á miðvikudag og vísaði í ársreikning félagsins, en Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri hafði upplýst Viðskiptablaðið um þessa ánægjulegu útkomu í viðtali í mars sl.  Í sama viðtali sagði Liv: „Í nokkur ár var Síminn með 60% markaðshlutdeild og Vodafone með 40%. Núna erum við með 26% hlutdeild á farsímamarkaði, Síminn er með ríflega 40% og Vodafone með u.þ.b. 30%.“

Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu félagsins frá stofnun þess í maí 2006, en fyrirtækið hóf að bjóða þjónustu hinn 1. desember 2007. Starfsmenn eru nú hátt í eitt hundrað og þar er valinn maður í hverju rúmi.

Nova er í eigu tveggja félaga minna, Novator og Novator Finland Oy. Félagið er að fullu fjármagnað með eigin fé og ber engar langtímaskuldir.