Engin nefnd og engar skýringar

Forseti Alþingis hefur sent mér skýrt og skilmerkilegt svar vegna spurninga minna um störf rannsóknarnefndar Alþingis og það ber að þakka. Í bréfi forseta kemur fram, að rannsóknarnefndin lét af störfum í apríl 2010, um leið og hún skilaði skýrslu sinni til Alþingis. Þá lýsa nefndarmennirnir þrír, Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson, því allir yfir að þeir hafi ekkert tjáð sig við fjölmiðla um skýrsluna. Það er því ráðgáta hvers vegna breska dagblaðið Observer heldur því fram að það hafi fengið skrif sín haustið 2011 staðfest hjá nefndinni. Þá er ekki síður undrunarefni til hvaða „höfunda rannsóknarskýrslunnar“ Sigrún Davíðsdóttir var að vísa þegar hún tilkynnti siðanefnd Blaðamannafélags Íslands að hún hefði grennslast eftir því hjá áðurnefndum höfundum „hver réttur skilningur á umfjölluninni væri.“ Í báðum tilvikum var nefndin löngu hætt störfum og nefndarmenn hafa ekki svarað neinum fyrirspurnum.

Ég ritaði bréf í desember sl. til forseta Alþingis og nefndarmanna í rannsóknarnefnd Alþingis. Eins og ég hef rakið áður hér á vefnum var tilefnið það, að mér höfðu þrívegis borist upplýsingar um að blaðamenn hefðu fengið nánari upplýsingar eða skýringar á efni rannsóknarskýrslunnar hjá rannsóknarnefndinni sjálfri. Fyrst leitaði Sigrún Davíðsdóttir til nefndarinnar, að eigin sögn, og svo breska blaðið Observer vegna greinar sem rituð var af blaðamanninum Simon Bowers og áðurnefndri Sigrúnu Davíðsdóttur. „Forseti Alþingis vill árétta að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni til Alþingis 12. apríl 2010 og lauk nefndin þar með störfum sínum,“ ritar forseti m.a. í bréfi sínu.

Þá fylgja bréfi forseta tvær yfirlýsingar. Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni staðfesta þeir Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson  að þeir hafi ekki svarað fyrirspurnum Sigrúnar Davíðsdóttur og/eða breska dagblaðsins Observer um atriði sem varða mig og viðskipti mín og nefnd eru í skýrslu rannsóknarnefndar. Þá rita þeir: „Að því marki sem blaðamenn, starfsmenn fjölmiðla eða aðrir hafa náð sambandi við okkur höfum við aðeins ítrekað þá afstöðu okkar að við svörum ekki fyrirspurnum um efni skýrslunnar. Skýrslan liggi fyrir og viðkomandi geti kynnt sér efni hennar. Með skýrslunni sé þessu verkefni lokið af okkar hálfu.“

Í yfirlýsingu Sigríðar Benediktsdóttur segir: „Frá því að störfum Rannsóknarnefndar Alþingis lauk í apríl 2010 hef ég, Sigríður Benediktsdóttir, hvorki fyrir hönd RNA né í nafni RNA svarað spurningum né gefið skýringar á efni Rannsóknarskýrslunnar.“

Að þessum svörum fengnum liggur beinast við að spyrja hvers vegna því er ítrekað haldið fram að Rannsóknarnefndin hafi veitt nánari skýringar á skrifum sínum eða lagt blessun sína yfir túlkanir blaðamanna. Ég spyr?