Eiturefnaúrgangur netsins

Ef fáfræði væri keppnisgrein á Ólympíuleikunum væri riðlakeppnin háð í athugasemdakerfum dagblaðanna, ritaði blaðamaðurinn Mic Wright í pistli á heimasíðu breska dagblaðsins Telegraph á dögunum. Wright fullyrðir að athugasemdaskrif séu eiturefnaúrgangur netsins og þessi skrif hans kalla að sjálfsögðu á ótal athugasemdir – og ekki allar fagrar. Fyrir rúmu ári ritaði Economist um þau stakkaskipti, sem fjölmiðlun hefur tekið á síðustu árum og tók þeirri þróun fagnandi, að fréttir væru nú í æ ríkari mæli ritaðar af þeim sem áður voru eingöngu lesendur, hlustendur eða áheyrendur, the people formerly known as the audience, eins og Economist kallaði það. Tvær áhugaverðar hliðar á sama peningi.

Economist birti greinaflokk á síðasta ári, sem fjallaði um breytta fjölmiðlun. Þar var vísað til þess að breytt tækni hefði opnað heiminn allan. Economist vitnaði meðal annars í þau ágætu ummæli eins fræðingsins, að fjölmiðlar, í stað þess að líta á sjálfa sig sem þá sem mörkuðu stefnuna og stýrðu umræðunni, yrðu að gera sér grein fyrir að blaðamennska væri nú aðeins hluti af umræðunni sem færi fram hvort sem er. Hlutverk blaðamanna væri að gefa umræðunni gildi með því að skýra frá staðreyndum, greina þær og setja í samhengi við aðrar og fletta ofan af röngum staðhæfingum, greina fréttir frá slúðri. En blaðamenn yrðu að viðurkenna að þeir hefðu ekki lengur neitt einkaleyfi á faginu.

Kaffihús heimsins

Í annarri grein í þessum flokki Economist er vísað til þess að netvæðingin og framþróunin hafi í raun fært okkur aftur til þess tíma þegar fréttir bárust manna á milli, einn sagði öðrum á kaffihúsum og knæpum þess tíma, uns farið var að prenta pésa og síðar dagblöð. Samræður manna á milli breyttust í lestur, hlustun, áhorf. Nú erum við að færast aftur á kaffihúsið í þessum skilningi, nema hvað allur heimurinn er undir. Þessir „láréttu“ eða „flötu fjölmiðlar“ gera alla að fréttamönnum. Twitter færslur færa mönnum heim sanninn um byltingar í ríkjum araba og dauða Bin Ladens, háleynileg skjöl liggja allt í einu frammi á vefsíðum, upptökur úr farsímum sýna eyðileggingarmátt flóðbylgju og svo mætti lengi telja. Án allrar ritskoðunar og allir geta haft skoðun – og lýst henni.

Þessar breytingar eru afskaplega merkilegar og oftast gleðilegar. Frelsið að baki er stórkostlegt. En frelsið er stundum á kostnað sannleikans.

Athugasemdakerfin

Í grein Telegraph á dögunum lýsti Mic Wright ágætlega hinum neikvæðu hliðum tækniframfaranna og frelsisins, þ.e. því hvernig athugasemdakerfi fjölmiðlanna fyllast af hatursfullum skrifum háværs meirihluta. Hann segir rannsóknir sýna að innan við 1% lesenda skrifi athugasemdir við fréttir. Þegar verst láti séu athugasemdir þeirra eins og eiturefnaúrgangur sem grafinn sé undir undirstöðum greinarinnar og eitri allar röklegar umræður með fáfræði og árásargirni.

Höfundurinn veltir fyrir sér ýmsum skýringum á því að ofur venjulegt fólk virðist missa sig í formælingum á netinu og fer ekki síður í manninn en boltann. Þar virðist ráða miklu að margir líta á netheima sem ótengda raunheimum og skapa þannig einhvers konar hliðarsjálf hins hugrakka (en orðljóta) riddara sem lætur allt flakka.

Þessar greinar Economist og Telegraph eru áhugaverðar, hver á sinn hátt.

Það má svo til gamans geta þess að höfundur pistilsins um eiturefnaúrgang netsins hefur fengið hátt í 1.700 athugasemdir við grein sína. Og margar þeirra athugasemda sýna að eiturefnin leynast víða!