Alþingi fær ekkert að vita

Seðlabanki Íslands hefur ítrekað þá afstöðu sína að Alþingi Íslendinga fái ekki að vita hvers vegna Seðlabankinn ákvað að lána Kaupþingi nær allan gjaldeyrisforða landsins, 500 milljónir evra eða um 82 milljarða króna, skömmu fyrir hrunið haustið 2008. Lánið var veitt með veði í FIH bankanum í Danmörku, en nú herma fréttir að Seðlabankinn – og þar með landsmenn – muni tapa tugum milljarða króna. Á sama tíma og þetta fé rann til Kaupþings var Landsbankanum neitað um lán að svipaðri upphæð til að reyna að liðka fyrir flutningi á Icesave í breska lögsögu.

Í frétt RÚV í gær var málið rifjað upp. Þar sagði að hinn 20. apríl sl. hafi formaður fjárlaganefndar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis farið fram á það við Seðlabankann að fá afrit af símtali Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Nefndirnar vildu afrit af þeim hluta samtalsins sem snéri að lánveitingunni  til Kaupþings. Seðlabankinn hafnaði beiðninni en formennirnir ítrekuðu. Nú hefur Seðlabankinn synjað þeim á ný.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar sagði í samtali við RÚV: „Bankanum mátti vera ljós sú áhætta sem var fólgin í því að lána Kaupþingi svo háa fjárhæð. Við höfum fengið synjun á grundvelli þagnarskyldu Seðlabankans, en við sem fulltrúar almannahagsmuna á Alþingi, viljum vita hvernig það gat orðið að allt að 40 milljarða tap gat lent á Seðlabankanum og þar með ríkissjóði og ég skil hreinlega ekki hvaða hagsmuni Seðlabankinn er að verja með því að neita okkur um þetta svar.“ Formaðurinn bætti raunar við, að hún væri sannfærð um að Alþingi myndi fá þessar upplýsingar. Vonandi gengur það eftir.

Hvers vegna og hvert rann féð?

Það er með ólíkindum ef menn ætla að þrjóskast við að skýra hvaða forsendur lágu að baki þessari lánveitingu. Hvaða gögn voru lögð fyrir Seðlabanka, svo menn þar á bæ gætu tekið upplýsta ákvörðun um að verja tugum milljarða í þágu Kaupþings? Og hvert rann það fé? Það hefur aldrei verið upplýst með viðunandi hætti. Þess í stað er skýrt frá því að þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hafi upplýst fyrir Landsdómi að hann hefði þá verið fyrir löngu búinn að átta sig á að bankinn myndi falla. Sami maður hafði varað ríkisstjórnina við því viku fyrr að allt bankakerfið myndi falla.  Samt fékk Kaupþing lánið. Og það án þess að formlegt samþykki lánanefndar Seðlabankans hafi legið fyrir eða að gengið hafi verið frá lánasamningi.