Allir mögulegir heimildamenn neita – Observer er að kanna málið

Nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis hafa allir lýst því yfir að þeir hafi ekki tjáð sig um efni skýrslunnar við Sigrúnu Davíðsdóttur eða breska blaðið Observer. Sigrún segist núna ekki gefa upp heimildarmenn sína. Það er fullseint, því hún hafði áður fullyrt að visku sína hefði hún frá rannsóknarnefndinni, en allir þrír nefndarmenn neita því afdráttarlaust. Þá er það rangt hjá Sigrúnu að Observer hafi ekki verið tilkynnt um svör forseta Alþingis og nefndarmanna í rannsóknarnefndinni. Upplýsingar um það voru sendar lögfræðideild blaðsins sl. föstudag. Ég fékk þau svör að blaðið væri nú að skoða málið nánar.

Í viðtali við Pressuna segir Sigrún að í ágúst sl. hafi birst grein eftir hana og breska blaðamanninn Simon Bowers „um fyrirhuguð snekkjukaup“ mín. Er henni þó fullkunnugt um að athugasemdir mínar við Observer lutu allar að því hvaða ályktanir voru dregnar í greininni um viðskipti mín, sem komu vangaveltum hennar um snekkju ekkert við. Þegar reynt var að koma leiðréttingum og skýringum á framfæri við Observer fengust þau svör í tvígang að blaðið hefði fengið nánar tilgreinda útreikninga sína og ályktanir staðfesta af rannsóknarnefnd Alþingis.  Nú hefur þetta verið hrakið með óyggjandi hætti: Rannsóknarnefndin er löngu hætt störfum og nefndarmenn hafa allir staðfest að þeir hafi hvorki veitt Sigrúnu né Observer upplýsingar.