Ábyrgð, gagnrýni og gagnsæi

Enginn þeirra 147, sem kom fyrir Rannsóknarnefnd
Alþingis, gekkst við ábyrgð sinni á hruni efnahagslífsins haustið 2008. Skýrsla
nefndarinnar var mikilvægt innlegg í nauðsynlegt uppgjör. Vissulega var hún
ekki gallalaus, en þar hefur Alþingi því miður ekki viljað hafa það sem sannara
reynist. Vonandi tekst þinginu betur til þegar það ræðst í löngu tímabæra
rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Fréttablaðið birtir þessa dagana greinaflokk í tilefni þess að fjögur ár eru liðin frá hruni. Grein dagsins fjallar um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar segir af vinsældum skýrslunnar, en einnig því, að ekki hafi allir tekið henni jafn fagnandi.  Þá segir: „Raunar eiga flestir gagnrýnendur það sammerkt að hafa verið skotspænir í skýrslunni og fengið þar umtalsverða ofanígjöf. Þar nægir að nefna Ólaf Ragnar Grímsson, Geir. H. Haarde, Björgólf Thor Björgólfsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jón Ásgeir Jóhannesson, Lýð Guðmundsson, Sigurð Einarsson og Jónas Fr. Jónsson.“

 

Rétt er að taka fram að flestir þeir, sem þarna eru taldir, höfðu fengið tækifæri til að skýra mál sitt ítarlega fyrir nefndinni sjálfri. Sjálfur var ég aldrei beðinn um að skýra eitt einasta atriði í viðskiptum mínum. Mig grunaði aldrei að ýmis konar upphrópanir og ásakanir manna, sem höfðu augljósan hag af því að gera minn hlut sem verstan, yrðu birtar án þess að ég fengi að svara fyrir mig á sama vettvangi. Það voru mér mikil vonbrigði að Alþingi sjálft skyldi ekki vilja veita mér liðsinni sitt til að leiðrétta augljósa vankanta skýrslunnar.

 

Ég fagnaði útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna og tengda atburði. Ég hafði ekki tjáð mig mikið um gang mála á meðan vinna nefndarinnar stóð yfir en eftir að skýrslan kom út gekkst ég við augljósum mistökum mínum og baðst afsökunar á þeim. Ég furða mig enn á að enginn þeirra 147 sem komu fyrir nefndina sá ástæðu til að gangast við ábyrgð sinni. Þrátt fyrir þá gagnrýni, sem ég hef sett fram á einstök efnisatriði í skýrslunni að því er mig varðar, þá er ljóst að skýrslan er að mörgu leyti mjög upplýsandi og að meginefni rétt.

 

Hvar er gagnsæið?

 

Í lok greinar Fréttablaðsins í dag er nefnt nú hefur verið lögð fram, í þriðja sinn, tillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna.  Vonandi hlýtur sú tillaga hljómgrunn á þingi. Stjórnmálamenn hafa í áratug þjarkað fram og til baka um hvernig að þessu var staðið og hafa því fylgt ásakanir um spillingu og hafa fjölmargir verið dregnir ofan í það svað. Ég hef áður ritað að ég tel brýnt að opinber rannsókn á þessari einkavæðingu fari fram. Því fyrr því betra. Hvers vegna hefjast stjórnvöld ekki handa við rannsóknina? Hvað eru pólitíkusar hræddir við? Hvað hafa menn að fela?