Yfirlýsing frá 2009 staðfest

DV greindi frá því í dag að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte í London hafi ekki fundið neitt misjafnt við notkun Landsbankans á Icesave-innistæðunum. Í fréttinni segir m.a.: „Árið 2009 sendu Björgólfsfeðgar, stærstu eigendur Landsbankans, frá sér tilkynningu í kjölfar fréttaflutnings þess efnis að Icesave-innlánin hefðu verið notuð að hluta í frekari lánveitingar til stærstu eigenda bankans. Þessu neituðu Björgólfsfeðgar og bentu á að stærsti hluti þeirra lána sem þeir hefðu fengið frá bankanum væru eldri en Icesave-innlánin. Samkvæmt þeirri niðurstöðu sem slitastjórn Landsbankans og Deloitte hafa komist að er þetta rétt.“

 

Fréttaflutningur DV varð talsmanni mínum, Ragnhildi Sverrisdóttur, tilefni til að ítreka athugasemd sína við bloggfærslu Láru Hönnu Einarsdóttur, sem kallaði eftir upplýsingum um „í hvað þessum fúlgum var eytt“ og gaf í skyn að ég hefði sölsað þetta fé undir mig með einhverjum hætti. Athugasemd Ragnhildar er svohljóðandi:

Sæl aftur, Lára Hanna.

Eftir lestur DV í morgun fannst mér ástæða til að bæta aðeins við athugasemd mína hér að ofan. DV virðist nefnilega hafa upplýsingar um að ekkert bendi til að Icesave-fé hafi verið notað í eitthvað misjafnt. Ég reikna auðvitað með að þú hampir þeirri frétt mjög, enda var tilefni síðustu færslu þinnar frétt Stöðvar 2 um að Deloitte í London hefði rakið slóð Icesave-peninganna, en frá niðurstöðunum mætti ekki segja. Skattborgurum væri ætlað að borga brúsann „án þess að vita nema þiggjendur fjárins séu meðal þeirra sem enn stunda viðskipti óáreittir í íslensku samfélagi, hagnast vel og lifa hátt.“ Síðar í færslunni fórst þú svo með dylgjur eftir nafnlausum heimildarmanni annarra og vangaveltur um að Björgólfur Thor væri að braska bæði hér á landi og erlendis með Icesave-fé.

Í frétt DV um málið í dag segir m.a.: „Heimildir DV herma jafnframt að eins og er bendi ekkert til að Icesave-peningarnir hafi verið notaðir í eitthvað misjafnt, til að mynda háar lánveitingar til eigenda Landsbankans eða þekktra, stórra viðskiptavina hans,“ og síðar segir: „Árið 2009 sendu Björgólfsfeðgar, stærstu eigendur Landsbankans, frá sér tilkynningu í kjölfar fréttaflutning þess efnis að Icesave-innlánin hefðu verið notuð að hluta í frekari lánveitingar til stærstu eigenda bankans. Þessu neituðu Björgólfsfeðgar og bentu á að stærsti hluti þeirra lána sem þeir hefðu fengið úr bankanum væru eldri en Icesave-innlánin. Samkvæmt þeirri niðurstöðu sem slitastjórn Landsbankans og Deloitte hafa komist að er þetta rétt.“

Í lok fréttarinnar er svo klykkt út með þessu: „Rannsóknin á Icesave-peningunum mun hins vegar ekki, að öllu óbreyttu, leiða af sér enn frekari fréttir af vafasömum lánveitingum til helstu eigenda Landsbankans og stórra viðskiptavina hans, líkt og margir hafa án efa talið líklegt.“

Það er auðvitað rétt hjá blaðamanninum, Inga Frey Vilhjálmssyni, að margir töldu án efa líklegt að þarna væri fiskur undir steini. Umræðan allt frá hruni hefur einkennst mjög af upphrópunum um ósannað misferli. Þeir sem hafa haft sig þar mest í frammi hljóta hins vegar að gæta allrar sanngirni og skýra líka frá því sem sannara reynist.

Með góðri kveðju,
Ragnhildur Sverrisdóttir