Undarleg viðmið

Rannsóknarnefnd Alþingis styðst við aðrar reglur en í gildi voru á Íslandi og annars staðar á Vesturlöndum um mat á áhættu af útlánum. Þá er það undarlegt að í meginniðurstöðum skýrslunnar eru skuldir eigenda Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hjá Landsbankanum aðeins miðaðar við eigið fé Landsbankans. Það er óvanalegt. Eðlilegt hefði verið að taka einnig mið af eignum og greiðslugetu lántakenda. Þetta er fyrsta greinin sem birtist hér á vefnum sem fjallar um efnisatriði þeirra athugasemda við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem ég hef sent forseta Alþingis og óskað eftir að verði birtar á undirvef Alþingis um rannsóknarskýrsluna.

 

 

Í 1. bindi – 2 kafli – Ágrip um meginniðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir á bls. 32 – 33: 

Við fall Landsbankans voru Björgólfur Thor Björgólfsson og félög tengd honum stærstu skuldarar bankans. Björgólfur Guðmundsson var þriðji stærsti skuldari bankans. Samtals námu skuldbindingar þeirra við bankann vel yfir 200 milljörðum króna. Það var meira en sem nam eigin fé Landsbankasamstæðunnar.

Björgólfur Thor var einnig stærsti hluthafi Straums-Burðaráss og hann var stjórnarformaður þess banka. Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson voru hvor um sig, ásamt tengdum aðilum, meðal stærstu skuldara bankans og saman mynduðu þeir stærsta lántakendahóp hans.

Eigendur bankanna fengu verulegar fyrirgreiðslur í gegnum dótturfélög bankanna sem ráku peningamarkaðssjóði. Rannsókn á fjárfestingum peningamarkaðssjóða á vegum rekstrarfélaga stóru bankanna þriggja leiddi í ljós að sjóðirnir fjárfestu mikið í verðbréfum tengdum eigendum bankanna.Vandséð er að tilviljun ein hafi ráðið þeim fjárfestingaákvörðunum.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson voru á árinu 2008 tveir sjálfstæðir fjárfestar. Eignarhald þeirra á hlutum í íslenskum fjármálafyrirtækjum var tiltölulega einfalt. Saman áttu þeir hluti til jafns í félögunum Samson eignarhaldsfélag ehf., nærri helming hvor, og Samson Global Holding. Helsta eign Samson eignarhaldsfélag ehf. var lengst af 42 til nærri 46% hlutur í Landsbankanum. Helsta eign Samson Global Holding var lengst af um 33% hlutur í Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka. Björgólfur Thor átti verulegar eignir fyrir utan þessi félög, þar á meðal eignarhluti í Actavis og símafélögum m.a. í Finnlandi og Póllandi. Hann átti einnig óbeint, lítinn hlut í fjárfestingafélagi Björgólfs Guðmundssonar, Gretti. Yfir 60% eigna sinna átti Björgólfur Thor einn eða með öðrum en föður sínum.

Rétt er að félög tengd Björgólfi Thor voru til samans einn af stærstu skuldurum bæði í Landsbankanum og í Straumi-Burðarási. Hafa skal í huga að langstærsti hluti lánanna var vegna yfirtöku félaga tengdum Björgólfi Thor á Actavis á árinu 2007 en útlánaáhætta bankans af þeim lánum hvíldi á rekstrarfélaginu Actavis Group hf. en ekki Björgólfi Thor.  Við yfirtökuna var íslenskum bönkum greiddar samtals € 550 milljónir eða um 88 milljarðar króna vegna þáverandi lána og hlutafjáreignar.  Í því sambandi er rétt að taka fram að við yfirtökuna minnkaði áhætta Landsbankans af lánaviðskiptum vegna Actavis. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að bankar sóttust eftir viðskiptum við Björgólfur Thor og að einungis um fjórðungur lánaviðskipta félaga hans var í íslenskum bönkum, þrírfjórðu hlutar viðskiptanna voru í erlendum bönkum.

Heildarskuldir-6

Mynd 1: Heildarskuldbindingar félaga tengdum Björgólfi Thor við fall íslenska bankakerfisins voru 5.567 milljónir evra, þar af við íslenska banka 1.188 milljónir evra og 4.379 milljónir við erlenda.

Þegar vísað er í skýrslunni til skuldbindinga Björgólfs Thors og Björgólfs Guðmundssonar og félaga þeirra við Landsbankann, sem sagðar voru um 200 milljarðar króna samkvæmt túlkun nefndarinnar, er rétt að hafa í huga að eigið fé þeirra var meira en sem nam eigin fé Landsbankans. Í ársbyrjun 2008 mat bandaríska viðskiptatímaritið Forbes eignir Björgólfs Guðmundssonar á um einn milljarð bandaríkjadala og eignir Björgólfs Thors á um þrjá milljarða. Nauðsynlegt er að hafa í huga að hvor um sig áttu þeir feðgar miklar eignir í viðbót við sameiginlegar eignir í Samson eignarhaldsfélagi og Samson Global Holding.

Rétt er að taka fram að rannsóknarnefnd Alþingis setur fram í skýrslu sinni annan skilning á reglum um hvenær fjárhagsleg tengsl viðskiptavina banka verða það mikil að áhættan af útlánum til þeirra telst ein og hin sama en aðilar á íslenskum fjármálamarkaði unnu samkvæmt. Miðað við forsendur sínar, sem eru andstæðar áralangri framkvæmd og túlkun, nær rannsóknarnefnd Alþingis að reikna sig upp í mun hærri heildarskuldbindingar hjá Björgólfi Thor en reglur segja til um. Þegar skilgreina þarf áhættu af útlánum til feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors skipta fjölskylduvensl engu  máli, heldur fjárhagsleg tengsl þeirra að öðru leyti. Eins og sjá má þá var fjárhagsleg tenging þeirra ekki meiri en svo, að á meðan annar er nú gjaldþrota er hinn það ekki þrátt fyrir miklar persónulegar ábyrgðir. Þá hefur einungis eitt félag sem Björgólfur Thor átti verulegan hlut í verið úrskurðað gjaldþrota en það er Samson eignarhaldsfélag sem hélt einkum utanum hlutabréfaeign í Landsbankanum en bréfin og verðmæti þeirra voru yfirtekin af ríkinu.