Undarleg eftiráspeki

Dagblaðið DV birti í gær undarlega frétt þar sem vitnað er í sum af svörum mínum við 23 spurningum ritstjóra Frjálsrar verslunar um ástandið á fjármálamörkuðum, stöðu íslensku krónunnar og vanda íslensku bankanna vorið 2008. Erfitt er að sjá hver fréttin er í frétt DV. Þó virðist blaðið vera að reyna að tengja svör mín um að skuldlaus ríkissjóður og miklar eignir lífeyrissjóða væri vísbending um styrkleika baklands bankanna við umræðu sem kom upp síðar um hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á innustæðum í bönkum. Þarna er mikill misskilningur á ferð og undarleg eftiráspeki. Umræðan á þessum tíma um skuldleysi ríkissjóð snérist um svigrúm ríkisins til lántöku til að styrkja Seðlabankann í því hluverki sínu að veita bönkum lán til þrautavara. Sú umræðu varðaði aldrei innistæðutryggingar.

DV

birti frétt í gær þar sem endurbirt voru ummæli mín í viðtali við Frjálsa verslun á vormánuðum 2008. Þar beindi ritstjóri blaðsins til mín 23 spurningum varðandi það ástand sem þá ríkti á fjármálamörkuðum og svaraði ég þeim að því marki sem ég treysti mér til.

Í fréttinni í DV, sem engnn blaðamaður er skrifaður fyrir, eru einstök ummæli mín slitin úr samhengi. Ég er m.a. spurður eftirfarandi spurningar:  Hversu sterkir eru íslenskir bankar? A) Eiginfjárstaðan? B) Lausafjárstaðan? C) Þolpróf Fjármálaeftirlitsins? D) Einkunnir erlendra matsfyrirtækja?“ Svar mitt var einfallt: „Vandi íslenskra banka er lausafjárvandi. Aðrir þættir eru fullkomlega sambærilegir við sem nú gerist hjá virtustu og bestu bönkum heims.“ Eftir að hafa rætt um vanda íslensku bankanna svara ég spurningunni um hversu sterkt bakland íslensku bankanna er í raun til að takast á við vandann. Svar mitt var eftirfarandi: „Ríkissjóður er skuldlaus, lífeyrissjóðir sterkir og eignir bankanna eru miklar og öruggar. Baklandið er sterkt en það dregur ekki úr alvöru þess ástands sem ríkir og að veruleg verðmæti er í húfi ef mönnum verða mislagðar hendur.“

Þessi svör mín verða DV tilefni til fréttaskrifa þremur árum síðar og vekur það sérstaka athygli blaðsins að ég skuli hafa nefnt skuldleysi ríkissjóðs þegar spurt er um styrk baklands og það sett í samband við umræðu sem spratt upp eftir hrun um hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á innistæðum Landsbankans. Hér er á ferðinni dæmigerð eftiráspeki sem annaðhvort byggir á fákunnáttu eða einbeyttum vilja til að skrumskæla. Vorið 2008 var mikil umræða um stöðu krónunnar og styrk íslenskra banka. Eins og lesa má í athyglisverðri bók eftir hagfræðingana Robert Z. Aliber og Gylfa Zoega – Preludes to the Icelandic Financial Crisis (Palgrave Macmillan 2011) voru sérfræðingar og greiningaraðilar sammála um alla helstu veikleika íslenska fjármálakerfisins og jafnframt um styrkleika kerfisins og þar var undantekningalítið bent á að ríkissjóður hafi verið skuldlaus og að lífeyrissjóðir væru sterkir. Skuldleysi ríkissjóðs tengdist engan veginn umræðu um innistæðutryggingar bankanna heldur svigrúmi stjórnvalda til að taka lán til að styðja við Seðlabanka Íslands og það hlutverk hans að veita bönkunum lán til þrautavara(e. lender of last resort). Þá gerir DV mikið úr þeim ummælum mínum að íslensku bankarnir hafi verið sambærilegir við bestu banka í heimi nema hvað lausafjárvandi þeirra væri stærri. Þessi ummæli féllu áður en Lehman Brothers bankinn féll og áður en ríkisstjórnir á Vesturlöndum dældu 2.600 milljörðum evra inn í bankana (vandi sem flestir ríkisstjórnir Vesturlanda eru í raun enn að glíma við) og björguðu þeim fáeinum klukkustundum áður en þeir hefðu fallið eins staðfest var síðar. Þessi orð mín um að ef horft væri framhjá lausafjárvanda íslensku bankanna væru þeir sambærilegir þeim bestu í heimi standast því ágætlega tímans tönn þegar horft er til þess vanda sem aðrir bankar stóðu frammi fyrir og þeim úrræðum sem stjórnvöld víða um heim gripu til að bjarga þeim.