Umræðan þokast í rétta átt

Magnús Halldórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu skrifaði nýverið pistil sem birtur er á vef blaðsins, vb.is undir heitinu Neyðarlögin eru ekki fyrir alla. Í þessari grein, sem vakið hefur athygli í umræðusamfélaginu, reynir Magnús að greina samspil aðstæðna á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði árið 2008 og ákvarðana og aðgerða íslenskra aðila – jafnt opinberra aðila sem einkaaðila. Í greininni gengur hann lengra en flestir í að greina hvernig séríslenskar aðstæður og aðgerðir áttu þátt í því að keyra allt um koll. Hann styðst þar einkum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á Magnús hrós skilið fyrir þessa grein þar sem hún er málefnaleg og reynir að þoka umræðunni um hrunið áfram, en hjakkar ekki í hjólförum endurtekninga eins og umræðan um skýrslu rannsóknarnefndar hefur gert og ég vakti athygli á þegar ár var liðið frá birtingu skýrslu nefndarinnar í apríl sl.

                                                                                                                         

Meginniðurstaða greinar Magnúsar um að neyðarlögin íslensku hafi ekki verið fyrir alla er rökrétt. Einnig er höfundurinn á réttum slóðum þegar hann er að greina hver eru alþjóðlegu vandamálin og hver eru hin séríslensku. Þá umræðu hefur skort eftir hrunið en það er einmitt af henni sem Íslendingar geta dregið mesta lærdóminn.

Umfjöllun Magnúsar um þátt íslensku krónunnar í hruninu er athyglisverð. Vissulega er alvarlegt hvernig búið var „að rústa gjaldeyrismarkaðnum fyrirfram“ eins og Magnús komst að orði með gjaldeyrisskiptasamningum sem þjónuðu hagsmunum stærstu eigenda Kaupþings og sömuleiðis er það alvarlegt að grunsemdir Seðlabankans þar að lútandi skyldu ekki leiða til einhverra viðbragða hjá yfirvöldum. Vonandi mun starf sérstaks saksóknara draga fram með skýrari hætti hvað var þarna á ferðinni. Það þýðir hins vegar ekki að „vantraust skilvirks markaðar á gjaldmiðlunum“ hafi ekki haft nein áhrif. Fjölmargir hagfræðingar hafa bent á að krónan hafi verið óeðlilega sterk á árunum 2005 -2007 einkum vegna ákvarðana stjórnvalda um háa vexti sem bjó til eftirspurn eftir krónum á gjaldeyrismörkuðum.  Sjálfur varð ég alltaf var við vantraust markaðarins á íslensku krónunni þegar ég reyndi að fá erlenda fjárfesta í verkefni á Íslandi eða sem bundin voru við íslenskan gjaldmiðil. Smæð gjaldmiðilssvæðisins, óstöðugleiki efnahagskerfisins sem að baki gjaldmiðlinum stóð og vanþekking erlendra aðila á forsendum ákvarðana er hann vörðuðu voru meginástæður vantraustsins sem ég fann fyrir í garð íslensku krónunnar. Í mínum huga á enn eftir að skoða til hlítar þróun gjaldeyrismarkaðarins frá 2005 -2008, einkum samspil aðstæðna á alþjóðamörkuðum og viðbrögð íslenskra aðila við þeim sem sköpuðu að sönnu „séríslenskar aðstæður“ og því tel ég fullsnemmt að draga umfangsmiklar ályktanir um hverjar helstu orsakir hruns krónunnar voru. Að minnsta kosti vara ég við að peningastefnutilraunir Seðlabanka Íslands frá 2001 til 2006 verði endurteknar.

Annað dæmi Magnúsar Halldórssonar um séríslenskar aðstæður er meint markaðsmisnotkun íslensku bankanna. Aftur hittir Magnús naglann á höfuðið því sú starfsemi sem fram fór í gegnum Kauphöll Íslands átti mikinn þátt í þeirri óðabólgu sem átti sér stað á Íslandi fram til 2007. Ég er hins  vegar ekki sammála honum um að markaðsmisnotkunin ein sé nægjanleg skýring á því að íslensku kauphallarvísitölurnar voru óralangt frá einhverjum raunveruleika. Með þessu er ég ekki með neinum hætti að gera lítið úr alvöru þeirra brota sem markaðsmisnotkun er og þá vona ég að skýrar niðurstöður fáist í slík mál sem verið er að rannsaka í tengslum við hrun íslensku bankanna. En eins og fram hefur komið í athugasemdum mínum við skýrslu rannsóknarnefndar þá fer skýrslan í sumum atriðum rangt með þegar hún fjallar um málefni Landsbankans og Samsonar, sem var félag sem hélt um eignarhlut minn í bankanum. Í öðrum málum er ég ósammála ályktunum rannsóknarnefndarmanna. Við eigum enn eftir að rannsaka til fullnustu hvernig það gat gerst að minnsta kauphöll í Evrópu, sem skráði félög í minnsta gjaldmiðli veraldar, gat skilað ár eftir ár hærri ávöxtun hlutabréfa en nokkur önnur kauphöll í heimsálfunni. Allt bendir til að hluti skýringarinnar felist í markaðsmisnotkun og öðrum lögbrotum. En þar með er ekki öll sagan sögð. Eftir standa í mínum huga fjölmargar spurningar um skilvirkni og hlutverk verðbréfamarkaðar á Íslandi – markaðar sem í alþjóðlegu samhengi verður alltaf lítill og veikburða. Skráð félög á slíkum markaði munu alltaf vera fá og einhæf, viðskiptavakar verða alltaf sárafáir og stórir og virkir kaupendur verða trúlega aldrei taldir í mörgum tugum. Á þetta litlum markaði munu fáir stórir aðilar alltaf vera í aðstöðu til að hafa veruleg áhrif á gengi og gang mála. Eitt af því sem Magnús og aðrir verða að hafa í huga þegar skilgreina á séríslensk sjálfskaparvíti er að í þessu tilliti verða þau til í alþjóðlegu regluverki og einnig kann að vera að smæðin ein geri það að verkum að það sem hentar milljónaþjóðum verði alltaf í skötulíki í samfélagi sem telur rétt um 100 þúsund heimili. Að mínum dómi eigum við enn eftir að skilja til fullnustu áhrifin af þeirri hálfgerðu alþjóðavæðingu íslensks efnahags- og viðskiptalífs sem staðið hefur yfir í nærri tvo áratugi.

Magnús fer hins vegar inn á villigötur þrætubókar þegar hann segir að tal mitt og fleiri um að ekki sé fjallað nægjanlega um fall íslensku bankanna í alþjóðlegu samhengi í skýrslu rannsóknarnefndarinnar beri vott um að ekkert okkar hafi lesið skýrsluna vandlega. Ég get ekki svarað fyrir aðra en sjálfan mig en þarna misskilur Magnús kjarnann í þessari gagnrýni. Þegar ég bendi á þetta atriði í umsögn um skýrslu rannsóknarnefndar er ég ekki að biðja um fleiri blaðsíðna umfjöllun um undirmálslán í Bandaríkjunum eða skipbrot láns- og lausafjármarkaða í Bandaríkjunum og Evrópu. Ég er miklu frekar að kalla á nánari og betri greiningu á því hvernig ytri aðstæður höfðu áhrif á ákvarðanir og aðgerðir aðila á Íslandi og hvert orsakasamhengið er. Í umfjöllun minni hér að ofan um þau tvö atriði sem eru hvað veigamest í góðum pistli Magnúsar hef ég reynt að benda á hve vefur Íslands og umheims er flókinn og ég stend ennþá við þá skoðun mína að í skýrslu rannsóknarnefndar um orsakir hruns íslenska fjármálakerfisins 2008 er greiningin á því neti ófullnægjandi.