Ummæli þvert á þekkingu

Sérkennileg ummæli þekkts hagfræðings og kennara í faginu, sem jafnframt er stjórnarformaður eignarhaldsfélags Íslandsbanka, vöktu furðu mína. Hagfræðingurinn sagði í spjalli á Útvarpi Sögu að hann teldi stórundarlegt að ekki væri leitað til fyrrum eigenda Landsbanka Íslands áður en reikningurinn fyrir Icesave þess banka væri sendur saklausum á heimilum landsins. Á meðan væri ekki annað vitað en Björgólfur Thor Björgólfsson ætti enn verulegar eignir og peninga. Hagfræðingurinn, Dr. Ólafur Ísleifsson, er vart eins skyni skoppinn í fræðunum og þessi ummæli hans gefa til kynna. Í athugasemdakerfi Eyjunnar, sem birti frétt af ummælum Ólafs, tók talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, að sér að rifja upp nokkur grundvallaratriði fræðanna sem Ólafur kennir.

 

Ragnhildur Sverrisdóttir ritaði m.a.:

„Björgólfur Thor var vissulega einn stærsti eigandi Landsbankans, átti helming af rúmlega 40% hlut, þ.e. um 20% hlutafjár í bankanum. Hann var ekki stjórnandi bankans og tók enga ákvörðun um rekstur hans, hvorki um stofnun Icesave-reikninganna né annað. Getur hagfræðingurinn útskýrt hvar hann ætlar að draga mörkin í kröfum sínum á hluthafa? Eiga þeir sem áttu 1% eða minna í bankanum líka að borga hlutfallslegan part af Icesave? Eða vill hann draga mörkin við 5%, 10%? Er ekki hugsanlegt að í hópi smæstu hluthafa sé fólk, sem enn á eignir, svo það geti borgað sín prómill af Icesave? Hefur hann kannski engin slík viðmið, heldur vill aðeins halda nafni Björgólfs Thors á lofti, af því að auðvelt er að þyrla upp moldviðri með þeim hætti? Hefur hagfræðingurinn kannski alveg gleymt grundvallarreglunni um takmarkaða ábyrgð eigenda á hlutafélagi? Getur hann kannski útskýrt hvaða líkur hann telji á því að menn leggi fé í fyrirtækjarekstur, ef horfið verður frá reglunni um takmarkaða ábyrgð? Er líklegt að menn myndu leggja milljarða til fyrirtækis, ef þeir tækju ekki einungis áhættuna af að tapa því fé, líkt og raunin var í tilfelli Landsbankans, heldur og að þeir bæru ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækisins? Hagfræðingurinn ætti þó að vita manna best, að þessi takmarkaða ábyrgð er grundvallarforsenda hagvaxtar og framþróunar.

Sú staðreynd, að Björgólfur Thor átti – og á – raunverulegar eignir, skilur hann auðvitað frá þeim sem aldrei áttu neitt og ráku öll sín umsvif með lánum. Björgólfur Thor gat hins vegar gengið frá skuldauppgjöri við alla lánardrottna sína, þar á meðal Landsbankann. Hingað til hefur enginn náð að leika það eftir.“

Ragnhildur velti einnig fyrir sér hvort Ólafur Ísleifsson væri farinn að huga að einhvers konar framboði, því hagfræðingurinn vissi auðvitað betur þótt hann kysi að slá ryki í augu almennings með yfirlýsingum sem væru fallnar til vinsælda. Ég get ekki, fremur en Ragnhildur, slegið því föstu hvað hagfræðingnum, stjórnarformanni eignarhaldsfélags Íslandsbanka og fyrrverandi framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands, gengur til með þessum yfirlýsingum sínum, sem ganga þvert á alla hans þekkingu.