Syndahafrar hrunsins

Í kjölfar nýjasta pistils Sigrúnar Davíðsdóttur á RÚV, þar sem löngu upplýstar staðreyndir eru ekki nefndar en þess í stað hamast á gömlum dylgjum, en rétt að rifja upp ágætan fjölmiðlapistil Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu í janúar sl., undir fyrirsögninni „Orðræða hatursins“. Andrés skrifar m.a.: „Nú er það þannig að margir hafa horn í síðu útrásarvíkinganna miklu, en það er ekki í verkahring fjölmiðla að ganga fram fyrir skjöldu í fordæmingu þeirra.“ Í pistlinum kemur RÚV allnokkuð við sögu.

 

Grein fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins hefst á umfjöllun um harðnandi pólitíska orðræðu, sem sumir reki til breytinga á fjölmiðlun. Netið hafi breytt pólitískri umræðu í keppni í gífuryrðum, sem hinir hefðbundnu fjölmiðlar hafi endurspeglað. Þá ritar Andrés: 

„Réttvísin kemur víðar við sögu, t.d. í rannsókn hins sérstaka saksóknara á Landsbankanum, einkum hvað varðar þátt Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra. Eins og svo oft er DV í nokkrum sérflokki hvað það áhrærir. Sólrún Lilja Ragnarsdóttir blaðamaður DV sagði þannig „frétt“ af því að gera mætti ráð fyrir því að Sigurjón hafi þurft að sofa í jakkafötum sínum eftir að hann var handtekinn og hvernig staðið væri að því að brauðfæða fanga: „Sigurjón hefur því að öllum líkindum gætt sér á samloku í boði ríkisins í morgunmat.“ Vel má vera að þetta sé rétt athugað, en hvaða erindi á það í svonefnda frétt?

Á mánudag skrifaði Ingi Freyr Vilhjálmsson mikla fréttaskýringu í DV um „Fall Sigurjóns“. Hún var um margt fróðleg, en annað var bara einkennilegt. Þannig var birt mynd af Sigurjóni í veislu í Kína árið 2007 þar sem hann var að skera fyrstu sneiðina af heilsteiktum gelti: „Myndin þykir vera táknræn fyrir tryllinginn sem einkenndi útrásina.“ Virkilega?

Fréttaflutningur af þessu tagi er auðvitað fyrst og síðast ósmekklegur, en hann ber vott um að erindi blaðsins sé eitthvað allt annað en upplýsing almennings.

Nú er það þannig að margir hafa horn í síðu útrásarvíkinganna miklu, en það er ekki í verkahring fjölmiðla að ganga fram fyrir skjöldu í fordæmingu þeirra. Þeir eiga að láta sér nægja að segja fréttirnar og eftirláta lesendum að draga eigin ályktanir. Eins og staðan er þá fá fjármálafurstarnir helst engum vörnum við komið, jafnvel þó nokkrar séu í.

Gott dæmi um það sást í úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna pistils Sigrúnar Davíðsdóttur í Spegli RÚV, þar sem ýjað var að því ekkert of fínlega að Björgólfur Thor Björgólfsson tengdist tilteknum fjármálagerningum, sem nú er einmitt til rannsóknar. Það var byggt á misskilningi Sigrúnar og hún gekk alltof langt sem svo oft áður í að draga ályktanir um það sem henni fyndist líklegast. Fréttastofan skirrðist við að leiðrétta óhróðurinn á öldum ljósvakans og lét sér nægja stuttaralega nótu á vefnum um að þetta væri eitthvað öðru vísi. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að Björgólfur Thor yrði bara að una því. Frekar aumt.

Og auðvitað heldur RÚV bara áfram að ýja. Á sunnudagskvöld sagði Kristófer Svavarsson t.d. frétt af því að Stöð 2 hefði sagt frétt um að Búlgari nokkur, gamall viðskiptafélagi Björgólfs Thors, hefði fengið himinháan yfirdrátt hjá Landsbankanum skömmu fyrir hrun. Til þess að segja eitthvað fleira en Stöð 2 bætti Kristófer svo við öðrum kafla, ekki skemmri, um að Búlgaría væri fátækasta og spilltasta land Evrópusambandsins. Ja svei! Örugglega Bjögga að kenna.

Eins mætti minnast á frétt þeirra Svavars Halldórssonar og Sigrúnar Davíðsdóttur frá fyrri viku um fundargerð lánanefndar Landsbankans degi eftir að bankinn féll. Þar var sem fyrr ýjað að einu og öðru, en látið vera að leita skýringa hjá hlutaðeigandi. Fyrrnefndur Björgólfur Thor hefur komið með trúverðugar skýringar á því hvernig málið sneri að sér, en um það urðu áhorfendur RÚV auðvitað einskis vísari.

Auðvitað verður blaðamönnum stundum á, það er bara eins og það er. Það er hins vegar erfitt að verjast þeirri hugsun, að þegar syndahafrar hrunsins eiga í hlut láti fjölmiðlar hefðbundna varkárni og kostgæfni lönd og leið.“