Svona rís gagnaver
Breska fjarskiptafyrirtækið Colt, sem útvegar búnað í gagnaver Verne Global í Reykjanesbæ, hefur látið vinna áhugavert myndband. Myndbandið útskýrir hvers vegna Colt varð fyrir valinu og gefur innsýn í hina miklu uppbyggingu, sem nú er á lokasprettinum.
Í myndbandinu útskýrir yfirmaður tæknisviðs Verne Global, Tate Cantrell, hvernig einingum frá Colt verður komið fyrir í gagnaverinu. Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, upplýsir áhorfendur að gagnaverið muni aðeins nýta hreina og endurnýjanlega orku og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fagnar því að nú styttist í starfsemi gagnaversins og áréttar mikilvægi þess fyrir samfélagið.
Gert er ráð fyrir að gagnaverið geti tekið til starfa eftir rúma þrjá mánuði. Framkvæmdin hefur vakið töluverða athygli fjölmiðla. Guardian birti grein um gagnaverið í september sl., nokkrum dögum síðar fjallaði Wall Street Journal um málið á tæknisíðum sínum og nú í byrjun október sagði fréttastofa Reuters af þessu gagnaveri, sem er hið fyrsta í heiminum sem ekki mengar með útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings og átti í upphafi 40% hlut. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust, eins og greint hefur verið frá hér. Reiknað er með að heildarfjárfesting þessara eigenda gagnaversins muni nema um 700 milljónum dala þegar það verður fullbúið. Allt það fé er erlent.