Straumur hætti að lána Baugi Group 2007

Rannsóknarnefnd Alþingis segir að í öllum bönkunum þremur og Straumi-Burðarási hafi lánaáhættan verið orðin of stór vegna Baugur Group. Í þessu sambandi tel ég rétt að taka fram að í þeim banka sem ég var stjórnarformaður, Straumi-Burðarás, var hætt að lána Baugi Group árið 2007. Ég var ekki í aðstöðu til að hafa áhrif á aðra banka en hafa verður í huga að einstaka banki hafði ekki heildarmynd af áhættu af útlánum til einstakra aðila í íslenska kerfinu. Nefndin rökstyður ekki ályktun sína um að kerfisleg áhætta af lánum til mín hafi verið of mikil. Ég mótmæli henni. Kerfisáhætta og útlánaáhætta miðast ekki aðeins við fjárhæð lána heldur einnig eignastöðu og getu til að greiða skuldirnar. Rétt er að minna á að þrátt fyrir gríðarlegt eignatap mitt vegna hruns fjármálamarkaða hef ég samið við mína lánadrottna um uppgjör skulda.

Í kafla 8.7.5. dregur rannsóknarnefnd Alþingis ályktanir er varðá útlán bankanna á Íslandi. Þar segir á bls. 171:

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að samþjöppun áhættu hjá íslensku bönkunum hafi verið orðin hættulega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði á þetta við um lánveitingar til ákveðinna hópa innan hvers banka en jafnframt að sömu hópar hafi myndað stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum hafi kerfisleg áhætta vegna útlána verið orðin veruleg. Skýrasta dæmið um þetta er Baugur Group og fyrirtæki honum tengd. Í öllum þremur stóru bönkunum og Straumi-Burðarási var Baugshópurinn orðinn of stór áhætta. Það er ámælisvert að áhættustýringar bankanna hafi leyft þessari áhættu að byggjast upp. Fyrir utan þá miklu áhættu sem hver banki bar vegna Baugshópsins mátti öllum bönkunum vera ljóst að skuldsetning hópsins í öðrum bönkum væri einnig veruleg. Í öllum bönkunum virðast lausnir á þessum vanda hafa miðast að því að rökstyðja fyrir eftirlitsaðilum að ekki væri um mikla samþjöppun áhættu að ræða fremur en að horfa til raunverulegrar áhættu og reyna að draga úr henni. Hið sama má segja um Exista, Björgólf Thor Björgólfsson, Björgólf Guðmundsson og Ólaf Ólafsson, þótt áhætta vegna þessara aðila hafi verið nokkru minni en Baugshópsins.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Björgólfur Thor var formaður stjórnar Straums. Strax á árinu 2007 voru uppi raddir um að heildarskuldbindingar Baugs í íslenskum bönkum væru miklar, en þá, líkt og nú, var ekki  á færi einstaka banka að draga fram heildarskuldastöðu einstaka viðskiptavina í íslenska kerfinu. Straumur hætti að veita Baugi ný lán árið 2007. Björgólfur Thor og forstjóri Straums, William Fall, voru meðvitaðir um miklar skuldbindingar íslenskra viðskiptahópa í íslenskum bönkum og litu þeir á það sem íslensku veikina sem þeir vildu reyna að lækna Straum af eins og fram hefur komið opinberlega. Björgólfur Thor var ekki í samskonar aðstöðu í Landsbankanum til að hafa áhrif á stefnu bankans.

Eins og þegar hefur komið fram í athugasemdum þá tekur rannsóknarnefnd Alþingis ekki tillit til eignastöðu lántakenda í íslenska bankakerfinu við mat á áhættu og því hafnar Björgólfur Thor þeirri niðurstöðu nefndarinnar að leggja stöðu sína að jöfnu við stöðu Baugs Group.