Skáldsaga af viðskiptum

Nýútkomin saga eftir Ingimar Hauk Ingimarsson, Sagan sem varð að segja, styðst ekki við raunveruleikann í Pétursborg á tíunda áratug síðustu aldar hvað varðar örlög og ævi fyrirtækisins Baltic Bottling Plant Ltd.(BBP). Hið rétta er að félagið var ólöglega stofnað þar sem Ingimar Haukur og félagi hans sviku um greiðslu hlutafjár. Síðan bjuggu þeir til fléttu viðskipta við aflandsfélög í þeirra eigu sem saug peninga út úr rekstri BBP. Eftir tvö erfið ár í rekstri og vanefndir og svik þeirra félaga blöstu við, ákvað Ingimar Haukur að selja fyrirtækið enda var hann þá með hugann við önnur verkefni í Pétursborg. Þegar hann fann síðan þefinn af velgengni verksmiðjunnar eftir að hann hafði selt hana reyndi hann með ýmsum hætti að teygja sig í hluta ávinningsins. Ávirðingum og aðdróttunum Ingimars Hauks verður svarað með ítarlegum hætti þegar færi hefur gefist á að fara yfir gögn þessa 17 ára gamla máls og ef tilefni þykir þá til.

 

 

BBP var stofnað af Ingimar Hauk og félaga hans Bernard Lardner (sem áttu félagið Baltic Group) ásamt rússneskum samstarfsaðilum, RMZ. Hlutfjárframlag Ingimars Hauks og Bernards var gosframleiðsluvélar sem hann hugðist kaupa af dótturfélagi Pharmaco hf á Íslandi, Gosan hf. Í stuttu máli þá greiddu Ingimar Haukur og félagi ekki nema hluta af kaupverði vélanna og í stað þess að leggja þær inn í hlutafélagið settu þeir þær í einkafélag þeirra á Tortóla á Jómfrúareyjum og leigðu þær aftur til BBP. Þar sviku þeir aðra hluthafa í félaginu. Vélarnar höfðu verið fluttar tollfrjálst og skattfrjálst til Rússlands, undir því fororði að þær væru stofnfé í þarlendu fyrirtæki, og gjörningur Ingimars var því ólöglegur.

Eins var með stjórnun verkefnisins. Samkvæmt hluthafasamkomulagi áttu Ingimar Haukur og félagi hans að leggja fram stjórnun og sérfræðiþekkingu sem hlutafé, en þess í stað gerðu þeir stjórnunarsamning við félag í eigu þeirra sjálfra sem BBP greiddi fyrir. Aftur sviku þeir meðfjárfesta sína. Á ýmsan annan hátt fluttu þeir peninga úr rekstri hlutafélagsins yfir í aflandsfélög sem þeir áttu einir – félög á borð við Opera Holding Limited, Gosan Limited og Northcroft Trading Limited. Létu þeir hlutafélagið greiða sér fyrir afnot af vörumerkjum, auk þess að selja því hugbúnað á uppsprengdu verði og síðar létu þeir fyrirtækið kaupa hluta vélanna, sem upphaflega áttu að fara inn sem stofnfé!

Til félagsins var ólöglega stofnað, það var undirfjármagnað frá upphafi og auk þess mergsogið af eigendum. Reksturinn gekk illa. Til að losa sig undan skuldbindingum gagnvart Gosan hf á Íslandi ákvað Ingimar Haukur í mars 1995 að selja hlut sinn í BBP, en samningurinn átti að taka gildi í september. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur síðar var kaupsamningurinn sagður hafa getað verið talinn „hagstæður báðum aðilum á þeim tíma sem hann var gerður.“

Fram til haustsins 1995 varð hins vegar algjör umsnúningur í rekstrinum, þegar farið var að framleiða áfenga drykki. Fyrirtækið skilaði hagnaði strax um sumarið og Ingimar Haukur sá eftir að hafa selt það.

Flest er úr lagi fært í sögu Ingimars Hauks og þeir sem lesa hana sjá að víða vantar í hana nánari skýringar, sem Ingimar kýs að sleppa. Þá er áberandi að hvergi leggur hann fram gögn til stuðnings sínu máli og skrá yfir opinberar heimildir er ekki að finna í bókinni – enda styðst hann ekki við neitt slíkt. Hann nefnir t.d. ekkert um að á þessum tíma, þegar hann var því fegnastur að losna við drykkjarvöruverksmiðjuna, einbeitti hann sér að því að reyna að selja Pétursborg strætisvagna.

Vegna ásakana Ingimars Hauks er rétt að benda á, að eftir að viðskiptasamstarfinu lauk í Pétursborg fyrir um 17 árum hafa mörg fjölþjóðafyrirtæki og stór fjármálafyrirtæki og stofnanir farið ítarlega yfir þær, til dæmis Pepsi og IFC, dótturfyrirtæki Alþjóðabankans, Er skemmst frá því að segja að fjölmargir lögfræðingar og sérfræðingar á vegum þessara aðila hafa kynnt sér málsgögn og deilurnar og niðurstaðan ávallt  verið sú að ásökunum Ingimars hefur verið vísað á bug. 

Ávirðingum Ingimars Hauks verður svarað eftir frekari yfirferð á gögnum þessa gamla máls, ef tilefni þykir þá til að svara skáldskap hans á málefnalegan hátt.