Siðanefnd svari sjálf

Stjórn Blaðamannafélags Íslands telur sig ekki geta tekið efnislega afstöðu til athugasemda talsmanns míns, Ragnhildar Sverrisdóttur, við vinnubrögð siðanefndar félagsins. Stjórn BÍ benti Ragnhildi á að „eðlilegasti vettvangurinn“ til að koma athugasemdum við störf siðanefndar á framfæri, væri aðalfundur félagsins. Ragnhildur telur hins vegar einsýnt að siðanefndin sjálf sé hæfust til að taka afstöðu til þeirra atriða, sem hún gerði athugasemdir við og beindi því erindi sínu til nefndarinnar. Siðanefndin hlýtur að vilja varpa ljósi á allt sitt starf, eigi hún að rísa undir nafni. 

Ragnhildur beindi opnu bréfi sínu í Fréttablaðinu 4. febrúar sl. til stjórnar Blaðamannafélagsins. Þar spurði hún stjórnina hvort hún teldi eðlilegt að siðanefnd kallaði málsaðila fyrir nefndina eftir eigin geðþótta, hvort hún teldi eðlilegt að siðanefndarmaður, sem ítrekað hefði dregið heilindi málsaðila í efa á opinberum vettvangi, tæki þátt í afgreiðslu máls og loks hvort stjórn BÍ teldi það þjóna tilgangi siðanefndar að málsgögn og forsendur úrskurða hennar væru málsaðilum ekki aðgengileg.

Stjórn BÍ svaraði Ragnhildi 26. febrúar sl. með tölvubréfi formanns félagsins, sem hljóðar svo:

Ágæta Ragnhildur

Ég þakka opið bréf þitt til stjórnar BÍ sem birtist í Fréttablaðinu 4. feb. sl., þar sem beint er spurningum til stjórnarinnar vegna starfa siðanefndar.  Því er til að svara að siðanefnd Blaðamannafélags Íslands er kjörinn á aðalfundi félagsins hverju sinni.  Hún starfar sjálfstætt og lýtur ekki boðvaldi stjórnar félagsins með einum eða öðrum hætti.  Siðanefnd er fjölskipaður úrskurðaðaraðili og til starfa þar hafa valist blaðamenn með áratugareynslu af blaðamennsku.  Auk þess starfa í nefndinni fulltrúar valdir af útgefendum annars vegar og siðfræðistofnun Háskóla Íslands hins vegar.  Enginn vafi er á að nefndin sinnir starfi sínu af kostgæfni og fagmennsku í hvívetna.  Teljir þú að eitthvað megi betur fara í starfi, starfsreglum eða siðareglum félagsins er aðalfundur félagsins eðlilegasti vettvangurinn til þess að koma þeim athugasemdum á framfæri.

Fyrirgefðu dráttinn á svari til þín.

Fyrir hönd stjórnar BÍ

Hjálmar Jónsson

Ragnhildur er vissulega reiðubúin að mæta á aðalfund Blaðamannafélagsins til að fylgja spurningum sínum eftir, þótt svör stjórnar BÍ í þá veru hljóti að teljast undarleg. Ekki er sjálfgefið að þeir, sem vísa málum til siðanefndar félagsins og gera í kjölfarið athugasemdir við vinnubrögð nefndarinnar, þ.m.t. ógagnsæi í málsmeðferð, mæti á árlegan aðalfund til að fá svör við knýjandi spurningum. Ég var hins vegar sammála Ragnhildi í því mati, að hin sjálfstæða siðanefnd félagsins hlyti sjálf að vilja svara athugasemdum um störf hennar. Í gær sendi Ragnhildur því erindi beint á siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, svohljóðandi:

Undirritaðri barst tölvubréf formanns Blaðamannafélags Íslands, fyrir hönd stjórnar félagsins, hinn 26. febrúar sl. Bréfið var svar við grein minni í Fréttablaðinu hinn 4. febrúar sl., þar sem ég óskaði svara við nokkrum spurningum um starf siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Í ljósi nýfenginnar reynslu virtist mér siðanefnd ekki tileinka sér með skýrum hætti gagnsæ vinnubrögð og opna starfshætti, líkt og gerð er vaxandi krafa um varðandi mál sem koma til umræðu á opinberum vettvangi. 

Af svari formanns má ráða, að siðanefndin sé svo sjálfstæð í starfi sínu að stjórn Blaðamannafélagsins geti ekki tekið efnislega afstöðu til athugasemda sem gerðar eru við störf hennar. Formaður félagsins getur þó fullyrt, að enginn vafi leiki á að nefndin sinni starfi sínu af kostgæfni og fagmennsku í hvívetna. Formaðurinn vísar á aðalfund félagsins sem eðlilegasta vettvang til að koma athugasemdum á framfæri. Mér þykir hins vegar einsýnt að siðanefndin sjálf sé hæfust til að taka afstöðu til þeirra atriða, sem fram komu í grein minni. Siðanefndin hlýtur að vilja varpa ljósi á allt sitt starf, eigi hún að rísa undir nafni. 

Hér með óska ég eftir að siðanefndin taki afstöðu til þeirra efnisatriða, sem fram komu í grein minni. Ég vísa til greinarinnar í heild, en beini sérstaklega þessum spurningum mínum að nefndinni: 

1. Telur siðanefnd eðlilegt að hún taki að sér að túlka afdráttarlausar reglur um að hún skuli kalla málsaðila fyrir nefndina á þann veg að hún geri það aðeins þegar henni þykir ástæða til?
2. Telur siðanefnd eðlilegt að siðanefndarmaður, sem ítrekað hefur dregið heilindi málsaðila í efa á opinberum vettvangi, taki þátt í afgreiðslu máls?
3. Telur siðanefnd það þjóna tilgangi nefndarinnar að málsgögn og forsendur úrskurðar nefndarinnar séu málsaðilum ekki aðgengileg, sem hefur í för með sér að niðurstaða nefndarinnar verður ávallt ógagnsæ?

 Að auki tel ég ástæðu til að spyrja siðanefnd Blaðamannafélagsins sjálfa hvort hún telji ekki mikilvægt að vinnubrögð hennar og ákvarðanir uppfylli kröfur um gagnsæi og opna starfshætti.

Virðingarfyllst

 Ragnhildur Sverrisdóttir

Vonandi sér siðanefnd sér fært að svara erindi Ragnhildar sem fyrst. Það snertir á engan hátt efnisatriði þess máls, sem kært var til siðanefndar á sínum tíma, heldur lýtur einungis að reglum siðanefndar sjálfrar um málsmeðferð.