Seðlabankinn fékk hverja krónu til baka
ALMC bankinn, áður Straumur-Burðarás, hefur gert upp að fullu lán sín hjá Seðlabanka Íslands, að því er fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins. Seðlabankinn tapar engu á lánveitingu til bankans, sem ríkið taldi af einhverjum ástæðum þörf á að yfirtaka vegna tímabundins lausafjárvanda.
Margoft hefur verið bent á þá staðreynd, að Straumur-Burðarás hefði hæglega getað staðið af sér brotsjói fjármálamarkaðarins. Stjórnendur bankans höfðu lagt fram skýra áætlun um sölu eigna til að mæta skuldbindingum næstu mánuða, en samt sem áður var tekin sú ákvörðun að beita neyðarlögunum og yfirtaka rekstur bankans. Harðasta úrræði var beitt, í stað þess að fara þá leið sem stjórnendur bankans lögðu til og komið hefði kröfuhöfum hans best. Aldrei hefur þó verið upplýst hvernig sú ákvörðun var tekin, enda engin gögn til um hana.
Frétt Viðskiptablaðsins er enn ein staðfesting þess að Straumur hefði ekki þurft að falla. Bankinn hefur nú greitt Seðlabankanum að fullu lán sín, „án þess að Seðlabankinn hafi mátt þola af þeim útlánatap eða afskriftir.“
Á sama tíma og ríkið felldi Straum-Burðarás án nokkurra skiljanlegra raka var milljörðum varið í vonlausar fjárveitingar til VBS og á sama tíma fékk Saga Capital tugmilljarða lán. Slitastjórn VBS telur að í tilfelli þess banka hafi verið um sýndargerning að ræða, enda hafi legið fyrir að bankinn hafi verið ógjaldfær.