Samið um lán að vori – síðasta greiðsla viku fyrir hrun
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er gefið í skyn að félag á mínum vegum hafi tekið lán í Landsbankanum í lok september rétt fyrir hrun íslensku bankanna. Það er ekki rétt að félag mitt hafi samið þá um lán heldur var samið um lánið á vormánuðum í tengslum við hlutafjáraukningu í Actavis en síðan var lánið greitt út í áföngum. Rétt er að sjótta og síðasta útborgun lánsins var 30.september 2008. Þessi rangfærsla er endurtekin fjórum sinnum í skýrslu nefndarinnar og ítrekað látið í veðri vaka að ég hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu rétt fyrir hrun. Rangfærslur í fremri hluta skýrslunnar verða að staðreyndum í síðari hluta hennar. Rétt er að fram komi að þetta lán var hluti af skuldauppgjöri mínu í júlí 2010.
Í kafla 8.8.3.4 um lán Landsbankans fyrir veðkalli Deutsche Bank vegna fjármögnunar kaupa á Actavis segir á bls. 176:
Í lánasamningi Deutsche Bank, aðallánveitanda Actavis, við félagið voru ákvæði um ákveðin eiginfjárhlutföll. Landsbanki Íslands lánaði um 200 milljónir evra í víkjandi lán inn í félagið (félagastrúktúrinn) við upphaflegu kaupin.
Um mitt ár 2008 hafði Actavis ekki gengið sem skyldi og því var hætta á að þessi hlutföll gætu fallið niður fyrir umsamin lágmörk. Því leitaði aðaleigandi Actavis, Björgólfur Thor Björgólfsson, til Landsbankans um lánafyrirgreiðslu til þess að koma í veg fyrir að Deutsche Bank gjaldfelldi lán á Actavis.
Samkvæmt lánasamningi dagsettum 25. júní 2008 átti Landsbanki Íslands í Lúxemborg að veita félaginu BeeTeeBee Ltd. 50 milljóna evra lán með fullri ábyrgð Landsbankans hf. BeeTeeBee Ltd. var félag í eigu Björgólfs Thors með aðsetur á Bresku Jómfrúaeyjunum. Þremur mánuðum síðar, nánar tiltekið 30. september, var svo bætt við þennan lánasamning og lánið hækkað upp í 153 milljónir evra. Sá samningur var undirritaður af Tómasi O. Hanssyni fyrir hönd lánþega og Marinó Frey Sigurjónssyni fyrir hönd lánveitanda. Samkvæmt Sigurjóni Þ. Árnasyni var þetta lán veitt til BeeTeeBee til að félagið gæti lánað Actavis víkjandi langtímalán til að mæta kröfu Deutsche Bank um aukið eigið fé inn í félagið.
Athugasemdir vegna þessa kafla eru svohljóðandi:
Vegna rekstrarerfiðleika sem komu upp hjá Actavis m.a. vegna tímabundinnar lokunar á verksmiðju í Bandaríkjunum fyrri hluta árs 2008 þurfti félagið rekstrarfjármagn til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Þegar þetta varð ljóst var í mars það ár ákveðið að auka hlutafé í félaginu og samdi Novator þá við Landsbankann um fjármögnun á sínum hluta þeirrar aukningar.
Þar sem ekki var þörf á öllu fjármagninu strax inn í Actavis var hlutafjáraukningin fjármögnuð í skrefum. Félög í eigu Björgólfs Thors greiddu fjármuni inn í Actavis í fyrsta skipti í apríl 2008, sem fjármagnað var af Landsbankanum Lúxemborg og síðan jafnt og þétt uns samningar tókust við Deutsche Bank í september 2008 um hlutafjáraukningu gegn endurfjármögnun. Síðasta greiðslan var í lok september. Greiðslur inn í Actavis voru skv. neðangreindu í milljónum evra:
EUR Apríl 15
Maí 15
Júní 20
Júlí 20
Ágúst 20
September 64
Samtals
154 Það er því ekki rétt sem ætla má af umfjöllun skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um lánafyrirgreiðslur til félags Björgólfs Thors frá Landsbankanum í lok september 2008 að um nýtt lán hafi verið að ræða. Þetta var síðasta útborgun á láni sem var samþykkt í mars 2008. Tryggingar voru veð í breytanlegu skuldabréfi í Actavis, sem í raun þýðir að veð var í hlutabréfum Björgólfs Thors í Actavis, og til viðbótar sjálfskuldarábyrgð Björgólfs Thors auk annarra trygginga í verðmætum eignum sem metnar voru tryggar.
Lánið var hluti af heildaruppgjöri skulda Björgólfs Thors í júlí 2010.
Þessar rangfærslur eru endurteknar fjórum sinnum síðar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í kafla 8.10.5 um Landsbankann í Luxemborg og í undirkafla 8.10.5.1. er því haldið fram að lán sé veitt í september. Þá endurtekur danskur sérfræðingur þessa rangfærslu í skýrslu sinni sem birt er í Viðauka 7. Að síðustu í er fullyrt í ályktunarkafla um fall Landsbankans – 20.4.2. að bankinn hafi veitt lánið 30. september 2008. Rangfærslur í fremri hluta skýrslunnar verða að staðreyndum í síðari hluta hennar. Nánar verður fjallað um þessa kafla skýrslunnar síðar.