Réttar upplýsingar um arðgreiðslur

DV fjallar í dag um arðgreiðslur íslensku bankanna á árunum 2006 og 2007. Vegna ónákvæmni, ofsagna og rangra ályktana þar í umfjöllun um arðgreiðslur til þeirra tveggja eignarhaldsfélaga sem ég átti aðild að – þ.e. Samsonar eignarhaldsfélags og Samsonr Global Holding, vil ég benda á að ítarlega er fjallað um þessar greiðslur bæði vegna Landsbankans og Straums á þessum vef sem hefur verið opinn blaðamönnum jafnt sem almenningi frá síðasta sumri. Þar má m.a. sjá að Samson greiddi fyrir hlut sinn í Landsbankanum yfir 25 milljarða króna umfram arðgreiðslur og að það er orðum aukið að ég hafi fengið „himinháar“ arðgreiðslur greiddar frá Straumi eins og segir í DV.

 

Á þessum vef – www.btb.is  – má einnig sjá að Samson eignarhaldsfélag greiddi samtals 30,1 milljarð króna fyrir hlut sinn í Landsbankanum á árunum 2003-2007 en það kemur ekki fram í DV. Arðgreiðslur til allra eigenda bankans námu á sama tíma 10,5 milljörðum króna og þar af runnu 4.3 milljarðar til Samsonar en aðeins einn milljarður af þeirri fjárhæð var greiddur út til eigenda félagsins. Það er síðan ekki rétt sem ályktað er í DV að mismunurinn  – sem nemur 3.3 milljörðum, hafi farið í rekstur félagsins – að stærstum hluta voru þeir fjármunir eftir inn í félaginu við fall Landsbankans. Af þessum tölum má augljóslega sjá að eigendur Samsonar eignarhaldsfélags voru ekki að taka fjármuni út úr Landsbankanum í formi arðgreiðslna eins og blaðið virðist halda fram – þvert á móti var framlag félagsins til bankans um 25 milljörðum umfram arðgreiðslur á þeim tíma sem það fór með ríflega 40% hlut í honum.

Samson Global Holding átti 30 – 33% hlut í Straumi fjárfestingarbanka. Á árunum 2006 og 2007 var greiddur arður til allra eigenda, sem skiptu tugum þúsunda, að fjárhæð um 12.4 milljarðar króna. Hlutur Samson af því var um 3.8 milljarðar króna. Þar sem ég átti innan við helming í Samson Global Holding er ekki rétt að álykta sem svo að allir þessir fjármunir hafi runnið til mín og þar að auki var það ekki svo að allir þessir  fjármunir hafi verið greiddir út til okkar eigenda þess félags. Erfitt er því að skilja hvernig DV kemst að þeirri niðurstöðu  að ég hafi fengið himinháar arðgreiðslur frá Straumi.