Rangfærslur um eignarhlut í CCP
DV gerir engan greinarmun á hagnaði fyrirtækis og því hvort það hafi greitt út arð. Þannig birti blaðið frétt um það á föstudag, að eigendur tölvuleikjaframleiðandans CCP hefðu fengið milljarða króna í sinn hlut vegna góðs gengis fyrirtækisins á síðustu árum. Sá hagnaður hefur hins vegar allur runnið í áframhaldandi þróun og vöxt fyrirtækisins og eigendur aldrei fengið greiddan arð. Þegar fréttin skaut upp kollinum á dv.is á sunnudag hafði blaðamaðurinn gert sér grein fyrir þessum miklu mistökum og skotið inn leiðréttingu, en skilaboðin voru áfram þau að eitthvað væri athugavert við eignarhald CCP.
DV birti sl. föstudag fullyrðingar um að hagnaður CCP rynni til félaga á Tortóla og að ég hefði hagnast um milljarða á fyrirtækinu frá 2006. Þá sagði blaðið að sala Straums á hlut í CCP árið 2006 hefði verið „undarleg“ og gaf í skyn að þar hefði stöndugt fyrirtæki verið keypt lágu verði og frá þeim tíma hefðu milljarðar runnið frá því til eigenda.
DV fullyrti, að rekstur fyrirtækisins hefði verið farinn að ganga vel þegar Straumur seldi hlutinn, en blaðið hlýtur þó að hafa ársreikning CCP fyrir árið 2005 undir höndum. Þar kemur fram, að eiginfjárstaða fyrirtækisins var neikvæð um tæpar 194 milljónir í lok ársins og að skammtímaskuldir væru tæpar 350 milljónir umfram veltufjármuni. Það þarf hugmyndaflug til að kalla þetta góða stöðu. Eigendur fyrirtækisins lögðu því hins vegar til aukið fé þegar það þurfti á því að halda.
DV sló því einnig upp að ég hefði hagnast um milljarða króna á CCP og er þá líklega að reikna aukið verðmæti hlutarins. Til allrar hamingju hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og þessi áhættufjárfesting reynst góð. Þau verðmæti, rétt eins og aðrar eignir mínar, voru grunnur að uppgjöri mínu við lánardrottna sl. sumar.