Rangfærslur sem útflutningsvara

Breska blaðið Observer birti um síðustu helgi grein um mig, sem var uppfull af ósannindum og hálfsannleika. Eins og kemur fram í athugasemd við greinina á vef blaðsins hef ég leitað til lögmannsstofu og lagt fram athugasemdir vegna vinnubragða fjölmiðilsins. Sigrún Davíðsdóttir, annar höfunda greinarinnar í Observer, birti færslu á bloggsíðu sinni í gær þar sem hún skýrir frá þessu. Hún bætir því við að sl. vetur hafi ég kært hana til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna umfjöllunar hennar um aflandsfélög Landsbankans. Sigrún segir að siðanefnd hafi vísað kærunni á bug. Hins vegar ferst fyrir hjá Sigrúnu að geta þess að í umræddri frétt fór hún rangt með atriði úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

 

Sigrún Davíðsdóttir lætur undir höfuð leggjast að taka fram að þegar málið var kært gekkst hún sjálf við því að hafa farið rangt með atriði úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún leitaði til höfunda skýrslunnar, sem staðfestu að hún hefði farið með rangt mál. Skýrara gat það ekki verið. Siðanefnd taldi þetta atriði hins vegar ekki nægjanlega mikilsvert til að jafngilda broti á siðareglum blaðamanna. Til að renna stoðum undir það álit sitt tók siðanefnd fram að ég hefði ekki verið nefndur í þessu samhengi, heldur Björgólfur Guðmundsson og Samson. Þar tók siðanefndin ekkert tillit til þess að öllum var ljóst að ég átti Samson í félagi við föður minn og að Sigrún Davíðsdóttir hafði sérstaklega nefnt það eignarhald fyrr í pistli sínum.

Í kærunni vegna umfjöllunar Observer er bent á margvísleg atriði þar sem höfundar greinarinnar fara með rangt mál og líta algjörlega framhjá öllum mínum athugasemdum. Þær athugasemdir hafa komið fram bæði á þessum vef og víðar. Þá fékk meðhöfundur Sigrúnar að greininni ítarlegar athugasemdir áður en greinin birtist, en tók ekki tillit til þeirra.