Rangfærslur og dylgjur Moskvufrétta

Pressan vísaði í gær í undarleg leiðaraskrif fréttablaðs í Moskvu, Moscow News, og gerði rangfærslur blaðsins að sínum.  Pressan segir leiðarahöfund „benda á“ ýmis atriði og „segja frá“ öðrum. Í einu tilviki endurritaði Pressan þó frásögn Moscow News: Blaðið fullyrti að ég hefði verið heiðurskonsúll Pétursborgar á Íslandi, en Pressan ritar hina sönnu útgáfu, þ.e. að ég var konsúll Íslands í Pétursborg.

 

Talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, sendi athugasemd til Pressunnar í gær. Meginefni hennar var birt, þ.e. það sem laut að Moscow News, en athugasemdum við vinnubrögð Pressunnar sjálfrar var sleppt. Athugasemd Ragnhildar í heild er eftirfarandi:

„Skrif Moscow News einkennast af því að varpa fram ásökunum og ætlast til að menn beri af sér sakir. Slík blaðamennska er oftast kennd við sorp og það ekki að ástæðulausu.

Moscow News tyggur upp gamlar dylgjur um að þeir, sem starfað hafi í Rússlandi, hljóti að hafa tengst glæpum á einhvern hátt. Þegar sú ímyndaða staðreynd er grundvöllur ásakana er eftirleikurinn auðveldur. Þar tekst meira að segja að tortryggja að Björgólfur Thor var konsúll Íslands í Pétursborg, sem Moscow News snýr reyndar á hvolf og segir Björgólf Thor hafa verið heiðurskonsúl Pétursborgar á Íslandi. Af einhverjum ástæðum færir Pressan það í rétt horf í þýðingu sinni.

Pressan, með tilvísan í Moscow News, spyrðir saman Icesave-atkvæðagreiðsluna og þá staðreynd, að Björgólfur Thor varð ekki gjaldþrota í efnahagshruninu sem reið yfir haustið 2008. Hvergi er nefnd sú staðreynd, að hann hefur gengið frá skuldauppgjöri við alla lánardrottna sína, enda fellur það illa að myndinni. Pressunni er þó fullkunnugt um þessa staðreynd. Og ætti einnig að vera ljóst, að þegar Moscow News skrifar Björgólf Thor og Landsbankann fyrir umsvifum, sem námu tífaldri þjóðarframleiðslu Íslands, þá var verið að tala um stærð íslenska bankakerfisins alls!

Moscow News kemst að þeirri niðurstöðu, að Björgólfur Thor hafi sloppið án ábyrgðar. Pressan ætti að vita, að Björgólfur Thor hefur skorið sig frá hópi þeirra, sem eitt sinn voru útrásarvíkingar, með því að viðurkenna mistök sín, biðjast fyrirgefningar og leggja alla áherslu á að ganga frá skuldauppgjöri, sem lokið var um mitt síðasta ár.

Pressan étur upp leiðara í Moscow News, þótt fréttamönnum þessa íslenska miðils hljóti að vera ljóst hversu margar rangfærslur leynast í þeim pistli. Það er ábyrgðarhluti að bera slíka vitleysu á borð fyrir almenning, þvert gegn eigin vitneskju og það án þess að setja nokkra fyrirvara við skrifin.“