Ráðherra reiðir sig á Kaupþing

 

Víða kemur fram í bók Árna Mathiesen að hann sem ráðherra reiddi sig talsvert á upplýsingar frá Kaupþingi og hann virðist hafa treyst honum best íslensku bankanna. Þá virðast Kaupþingsmenn hafa veitt ráðherra upplýsingar um Landsbankann sem hann sá ekki ástæðu til að fá staðfestar. Frásögn bókar Árna af atburðarás haustdagana 2008 er óljós þar sem allir fundir eða samtöl eru ekki listuð í réttri tímaröð og heldur ekki vísað til þeirra þannig. Ljóst er að fjármálaráðherrann var í nánari og tíðari samskiptum við Kaupþing en Landsbankann eins og sjá má hér af frásögn af fundum sunnudaginn 5. október 2008:                       

„Það lá ekki fyrir nein ákveðin niðurstaða og við urðum að hitta bankamennina á nýjan leik eftir fund með fulltrúum Kaupþings sem sögðu bankann ekki geta fundið neina lausn með Landsbankanum, eins og þeir höfðu talið fyrr um helgina. Þar með staðfestu kaupþingsmenn í rauninni að engin innistæða hafði verið fyrir þeim orðum Björgólfs Thors að til væri eigið fé í Landsbankanum. Landsbankinn var því ekki lengur inni í myndinni sem stoð til að halda upp fjármálakerfi landsins.“ (Bls. 44.)

Ekki er ljóst hvaða „bankamenn“ ráðherrann þurfti að hitta á nýjan leik eftir fund með Kaupþingi og þá er ekki ljóst hvaða Kaupþingsfundar ráðherra vísar til. Fram hefur komið, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að ráðherrar áttu fund með Kaupþingsmönnum og Landsbankamönnum í sitthvoru lagi að morgni  5. október og síðdegis sama dag, eða um kl. 17.00 samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar, áttu þeir sameiginlegan fund með fulltrúum beggja bankanna þar sem rætt var um sameiginlega yfirtöku Kaupþings og Landsbankans á Glitni með aðild ríkisins. Eftir þann fund fara Landsbankamenn og ræða m.a. við Hector Sants, forstjóra breska fjármálaeftirlitsins (FSA), um lausnir varðandi Icesave-innlánareikningana og við Seðlabanka Evrópu varðandi frestun á takmörkunum á endurhverfum viðskiptum sem bankinn hafði tilkynnt um á föstudagskvöldi og hafði þá breytt til verri vegar lausafjárstöðu Landsbankans. Samtölin við FSA og Seðlabanka Evrópu fara á besta veg, krafa þessara aðila um lausafjárbindingu Landsbankans daginn eftir lækkaði um helming og því urðu Landsbankamenn vongóðir um að með aðstoð ríkisins gæti bankinn lifað áfram hvort sem til sameiningar við Glitni kæmi eða ekki. Upplýsingum um breytta stöðu var reynt að koma áleiðis til ráðherra og Seðlabankans í gegnum tengiliði en ráðherrar gáfu sér ekki tíma til að ræða við Landsbankamenn um breytta stöðu.

Það sem hins vegar vekur athygli við þessa frásögn fyrrum fjármálaráðherra er að hann virðist hafa verið á fundi með Kaupþingsmönnum þarna á sunnudagskvöldinu og tekið þar við upplýsingum frá þeim um stöðu og getu Landsbankamanna og að Landsbankinn væri „ekki lengur inn í myndinni sem stoð til að halda uppi fjármálakerfi landsins“. Frásögn Árna í bók hans virðist staðfesta að ráðherra hafi ekki séð ástæðu til að heyra í Landsbankamönnum varðandi þetta eða fá „upplýsingar“ Kaupþingsmanna staðfestar frá þriðja aðila. Þetta kemur skýrar fram annars staðar í bókinni:

„Síðar um helgina komu kaupþingsmenn og sögðu einfaldlega við okkur: Þetta gengur ekki með Landsbankann, þeir bara segja okkur  ósatt. Þeir geta ekki gert þetta, sem þeir eru að tala um að gera. Björgólfur Thor var í forystu fyrir landsbankamönnunum þessa helgi.

Ég held þeir hljóti að hafa vitað allan tímann og gert sér grein fyrir að sú leið sem þeir ræddu, að sameinast Kauþingi og yfirtaka Glitni, væri algjörlega óraunsæ.“ (Bls. 33.)

Þarna sést vel að fjármálaráðherra byggir mat sitt á stöðu Landsbankans á upplýsingum frá Kaupþingi og ályktar útfrá sömu upplýsingum um hvað Landsbankamenn hljóti að hafa vitað. Hann gengur svo langt í ályktunum að hann ætlar Landsbankamönnum að vera í einhverjum blekkingarleik dagana fyrir fall þegar allir sem að máli komu voru að reyna að bjarga því sem bjargað varð af heiðarleika með þeim ráðum sem menn höfðu. Þá fer ráðherra einnig frjálslega með staðreyndir í þessum tilvitnunum. Aldrei  stóð til að Kaupþing og Landsbankinn sameinuðust og tækju yfir Glitni. Það hefði þýtt að aðeins einn banki yrði eftir í landinu og hefði ráðherra átt að sjá að slíkt gengi aldrei upp. Það sem kom til greina var fyrst og fremst sameiginleg yfirtaka á Glitni, þ.e. að Landsbankinn tæki yfir hluta hans og Kaupþing gerði slíkt hið sama. Þá er jafnframt rétt að fram komi að stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson, óskaði eftir því við mig að ég kæmi til Íslands þessa helgi vegna ástandsins sem skapaðist við yfirtöku ríkisins á Glitni. Mitt hlutverk var tvíþætt. Annars vegar að ganga erinda Straums, þar sem ég var stjórnarformaður, en sá möguleiki var alltaf á borðinu að sameina Straum og Landsbankann sem hluta af lausn á vandanum sem við blasti og hins vegar hvað varðar Landsbankann var hlutverk mitt fyrst og fremst sem hluthafi bankans og milliliður í samskiptum við hluthafa og stjórnendur hinna bankanna sem og stjórnvöld. Þegar sagt er að ég hafi haft forystu fyrir Landsbankamönnum þá er ráðherra að lýsa upplifun sinni – sem var ekki alveg í samræmi við raunveruleikann.

 

Einnig er afar forvitnilegt að skoða minnispunkta ráðherra frá fundi kvöldið áður, laugardaginn 4. október.

Í lok þessa fundar með seðlabankastjórunum skrifar Árni hjá sér:

„Glitnir fer þá á höfuðið á mánudag

LÍ líklega líka

Kaupþing telur sig enn geta lifað“ (Bls. 38.)

Hér sést að hann metur stöðu Kaupþings útfrá upplýsingum frá Kaupþingi – „Kaupþing telur sig“, en matið á Landsbankanum og Glitni byggir á mati einhverra ótilgreindra aðila. Upplýsingar sem ráðherra vinnur með eru augljóslega ekki sambærilegar en það kemur ekki í veg fyrir samanburð ráðherra sem virðist leggja grunn að mati hans og ákvörðunum.

Athyglisvert er að á meðan ráðherra reiðir sig á Kaupþing eins og raun ber vitni þá virðist fjármálaráðherra vera þeirrar skoðunar að Landsbankinn sé líklegri til að fara í þrot en Kaupþing um og eftir yfirtöku ríkisins á Glitni. Í frásögn ráðherrans af helginni örlagaríku þegar ríkisvaldið ákvað að yfirtaka Glitni virðist ráðherra aldrei gruna að slík aðgerð hefði áhrif á Kaupþing, aðeins Landsbankann:

„Niðurstaða á laugardeginum var sú að það væri nánast sama hvað yrði gert, það myndi fella Landsbankann líka vegna krossveðsetningar og þvíumlíks.“ (Bls. 19.)

Allmargir voru kallaðir til þennan sunnudag í Seðlabanka, fjármálaráðuneyti, forsætisráðuneyti: bankamenn og fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, auk annarra sérfræðinga. Minnisblöð voru skrifuð, þau skoðuð og þeim breytt, hugmyndir ræddar, skoðaðar nánar  eða lagðar til hliðar. Reynt að rýna í framtíðina. Úr einni slíkri kristalskúlu lásu menn að þær leiðir sem helst þóttu koma til greina myndu ekki leiða til falls Landsbankans. (Bls. 21.)

 „Þá fór okkur að renna í grun að Landsbankinn hefði í raun verið fallinn þegar FL Group og Gnúpur voru að falla í upphafi árs 2008 …“ (Bls. 25.)

Engar efasemdir er að finna hjá ráðherra um stöðu og styrk Kaupþings þegar þarna er komið í sögu. Síðan þegar að yfirtaka ríkisins á Glitni hafði leitt til þess að lánshæfismat ríkisins féll og þá um leið matið á viðskiptabönkunum var ljóst að vandi Landsbanka og Kaupþings stækkaði ört. Í bók Árna kemur fram að ríkisvaldið skoðar hvernig bregðast eigi við og leggur upp með að bjarga einum banka. Án þess að fullnægjandi skýring sé gefin virðist alltaf annað hvort sem bjarga eigi Glitni, – sem var í eigu ríkisins, eða Kaupþingi, eins og sjá má á þessum köflum úr bókinni.

Sérfræðingahópur, sem forsætisráðherra hafði skipað laugardaginn 4. október, til að vinna neyðaráætlun vegna yfirvofandi falls bankanna, kom í Ráðherrabústaðinn á hádegi sunnudagsins. Í hópnum voru Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, Jón Steinsson, hagfræðingur og lektor við Columbia háskólann í New York, og Bogi Nils Bogason, endurskoðandi, auk Tryggva Þórs Herbertssonar, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, og Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra.

„Þeir settu á mikið glærushow þar sem þeir veltu upp hvaða möguleikar væru í stöðunni ef allt færi á versta veg, hvernig hægt yrði að halda einhverri starfsemi gangandi. Einhver bankinn sem gæti tekið allt yfir með stuðningi frá ríkinu. Það var leið A eða B með Kaupþingi eða Glitni, eftir því á hvorn yrði veðjað, og innistæðutryggingar með skuldabréfum, innlendur hluti og erlendur hluti, hvað dæmið væri stórt og hverjir væru kostir og gallar hinna mismunandi leiða. Ein leiðin var t.d. að byggja á sparisjóðunum vegna greiðslukerfis þeirra. (Bls. 43-44.)

Fyrst var unnið út frá því að verja Glitni eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að leggja 84 milljarða hlutafé í bankann í því skyni að forða honum frá falli. Þrátt fyrir það voru vandræði hans fráleitt úr sögunni. Þvert á móti. Glitnir sogaðist niður með vaxandi vanda hinna bankanna. Alls staðar var við sama að vanda etja, veðköll og slitnar lánalínur, og hremmingarnar virtust frekar aukast en minnka þrátt fyrir boðaða hlutafjárinnspýtingu ríkisins. Stjórnendur Glitnis áttu því erindi við fjármálaráðherrann á meðan fundirnir stóðu yfir í Ráðherrabústaðnum.

„Ég átti að minnsta kosti tvo, ef ekki þrjá fundi með þeim þessa helgi, bæði uppi í fjármálaráðuneyti og eins í Ráðherrabústaðnum þar sem þeir útlistuðu tillögur um að losa um eignir bankans. Þeir höfðu þá augljóslega áttað sig á því að hinir bankarnir voru að reyna að gera eitthvað. Glitnismenn voru að einhverju leyti að reyna að bjarga eigin skinni en þarna var það sennilega orðið of seint. Ef þeir hefðu gert það strax í upphafi eftir Glitnishelgina, þá hefðum við kannski átt möguleika á að bjarga bankanum. … Hins vegar hefði munað mjög miklu ef við hefðum getað haldið einum banka lifandi og það má segja að niðurstaða helgarinnar hafi verið sú að Kaupþing gæti lifað. Þess vegna var ákveðið að hann fengi lán í Seðlabankanum með veði í FIH bankanum  danska. Lánið var til tveggja, þriggja sólarhringa en þeir áttu von á einhverjum peningum, en ég vissi ekki smáatriðin í þessu, ákvörðunin var ekki borin undir mig. Ég taldi á þessum tíma að Kaupþing stæði það vel að það mundi standa af sér þessar hremmingar og hefði lifað þær af ef bresk stjórnvöld hefðu ekki farið inn í bankann.“ (Bls. 48.)

„Raunverulega trúði maður því aldrei að Kaupþing væri að fara, maður hélt að það væri sterkast af þeim. Vissulega voru komnir fram veikleikar í Glitni sem við glímdum við og menn sáu að það voru veikleikar í Landsbankanum. Eins og sést af punktum mínum frá ráðherrabústaðarhelginni voru miklar vangaveltur um það hvort Landsbankinn mundi þola það að Glitnir færi eða eða ekki, jafnvel  hvort hann mundi þola björgunaraðgerðir ríkisins á Glitni. Þá var spurningin: Gætum við bjargað honum líka? Sennilega hefðum við ekki getað það, jafnvel þótt Kaupþing hefði lifað.  Jafnvel þótt Bretarnir hefðu ekki farið inn í hann, eins og þeir gerðu, því að raunverulega fella þeir bankana með aðgerðunum og þegar þær aðgerðir skella á okkur þá er vonlaust að reyna að halda þeim gangandi, það var meira að segja vonlaust að halda Glitni gangandi eftir það.“ (Bls. 181-182.)

Eina ástæðan sem fyrrum fjármálaráðherra gefur fyrir því að dagar Landsbankans hafi verið taldir áður en hann féll var sú að áhlaup var hafið á Icesave-innlánareikningana og þar með væri sagan sögð. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Vissulega var mikil hætta fólgin í áhlaupi á Icesave-innistæðurnar, þ.e. að viðskiptavinir myndu taka út innistæður sínar. Og vissulega er það rétt að helgina 4.-5. október var útstreymi af þeim reikningum. Hins vegar er rétt að hafa það í huga að í Bretlandi var þessa dagana mikil óvissa á fjármálamörkuðum og innistæðueigendur höfðu ekki í mörg hús að venda og þar að auki voru nærri 60% inneignanna bundnar. Þá átti mönnum einnig að vera ljóst að ef Icesave slyppi við áhlaup þá var Landsbankinn með traustari fjármögnun í þessu ástandi sem þarna var þar sem kyrfilega var lokað fyrir alla aðra fjármögnun banka á þessum tíma en með innlánum og því áttu bankar sem lítið reiddu sig á innlán í verulegum erfiðleikum með að mæta áföllum. Sú skýring að Landsbankinn hefði staðið veikara en Kaupþing vegna Icesave-áhlaupa og því væri síður ástæða til að reyna að bjarga honum dugar því ekki nema hálfa leið þegar skýra á trú ráðamanna á Kaupþingi umfram Landsbankann helgina 4.-5. október og hún dugar tæpast nokkuð vegna sömu sjónarmiða helgina þar á undan því þá var áhlaup á Icesave ekki hafið.

Önnur ástæða kann að vera sú að einhverra hluta vegna voru gangvegir Kaupþings til ríkisstjórnar – ekki Seðlabankans, greiðfærir. Stjórnvöld og þá um leið ráðherra efast ekki um styrk Kaupþings en eru afar móttækileg fyrir efasemdum um styrk Landsbankans. Ljóst er að Kaupþing er mikilvæg upplýsingaveita fyrir fjármálaráðherra og ljóst er að hann trúir því að sá banki hafi staðið sterkastur þessa dagana. Þetta kemur skýrt fram í vitnisburði Árna Mathiesen hjá rannsóknarnefnd þar sem hann hefur þar eftir Kaupþingsmönnum ýmis meiðandi ummæli um mig (sbr. Skýrsla RNA, 7. bindi, kafli 20.3, bls. 143 – 144) og í bókinni endurómar sá vitnisburður m.a. í ofangreindum tilvitnum (bls. 44 og bls. 33). Þá er athyglisvert að ráðherra tekur mark á óljósum yfirlýsingum Kaupþingsmanna um að þeir eigi von á „einhverjum peningum“ þegar allt var frosið á fjármálamörkuðum án þess spyrjast um það frekar. Víst er að margir sem þekktu vel til í fjármálakerfinu höfðu miklar efasemdir um raunverulega stöðu Kaupþings og var Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans lengi vel mjög efins um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem Kaupþing setti frá sér. Ef Sigurjón Þ. Árnason hefði haft þann aðgang að fjármálaráðherra sem Kaupþingsmenn höfðu og hann haft milligöngu um að upplýsa ráðherra um stöðu Kaupþings – líkt og bankastjórar Kaupþings gerðu varðandi Landsbanka, er ómögulegt að segja hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar. 

Síðar hafa sjónarmið og efasemdir Sigurjóns Þ. Árnasonar og fleiri um uppblásinn efnahag hjá Kaupþingi verið ítrekuð. Að auki hefur komið í ljós að Kaupþing leyndi yfirvöld mikilvægum upplýsingum um auknar kröfur fjármálafyrirvalda í Bretlandi til bankans föstudaginn 3. október. Loks má svo nefna, að ráðherra talar enn, á þriðja ári frá hruni, eins og Kaupþingsmenn hafi í raun átt von á einhverju fé inn í bankann, þegar löngu er orðið ljóst að peningarnir streymdu aðeins út úr bankanum þessa daga. Þar er enn eitt atriðið, sem ráðherrann telur ekki ástæðu til að endurskoða. Honum segist svo frá:

„Það er hins vegar mjög erfitt að átta sig á þessu því að síðan hefur svo margt skrýtið komið upp úr dúrnum varðandi Kaupþing og viðskiptin þar. Þó að þeir hafi á þessum tíma ekki átt að standa frammi fyrir neinum stórum greiðslum fyrr en sumarið eftir, 2009, þá veit maður ekki hvað þessir einkennilegu hlutir ristu djúpt. En bresk stjórnvöld veittu Kaupþingi örugglega náðarhöggið þegar þau fóru inn í Kaupthing Singer & Friedlander bankann í London og færðu Edge-reikningana til Hollands.“ (Bls. 48-49.)

Ofangreind tilvitnun er eina tilraun ráðherrans til að gera upp við þá aðila sem hann reiddi sig hvað mest á við mat á stöðu mála í aðdraganda hrunsins. Þessir sömu aðilar eru – samkvæmt eigin vitnisburði Árna Matt í þessari bók, þeir sem „upplýstu“ ráðherra og mótuðu afstöðu hans til þess sem Landsbankinn og ég vorum að reyna að gera. Sú afstaða er afar neikvæð og því vekur það eftirtekt að ráðherra skuli ekki endurmeta þær „upplýsingar“ í ljósi þess sem síðar hefur komið fram um aðgerðir Kaupþingsmanna. Að minnsta kosti hefði mátt vænta endurmats á þeim vinnubrögðum stjórnvalds að byggja ákvarðanir sínar á umsögn eins markaðsaðila um keppinaut sinn, en slíkt endurmat er ekki að finna í bók Árna Matt.