Óttinn við hið óþekkta
Fréttatíminn fjallar í dag um þá keðju félaga, sem eru að baki einu stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Þar virðist enn á ný gengið út frá að eitthvað sé aðfinnsluvert við uppbyggingu Actavis, af þeirri einu ástæðu að fjölmiðillinn skilur ekki það sem hann er að fjalla um og fyllist þar með ástæðulausum ótta. Þegar blaðið segir að met sé slegið í flækjum eignarhaldsfélaga kemur það upp um hversu ókunnugt það er skipulagi eignarhalds á alþjóðlegum fyrirtækjum. Flækjan í kringum Actavis er ekkert met.
Í grein Óskars Hrafns Þorvaldssonar segir: „Björgólfur Thor Björgólfsson bjó til flókið eignanet, líkt og margir aðrir útrásarvíkingar. Félaganet hans í kringum kaupin á Actavis árið 2007 slá [svo] þó líklega flest met.“
Fréttatíminn tíundar svo þau félög sem eru í þessu „félaganeti“. Ef menn hafa á annað borð einhverja þekkingu á slíku þá sjá þeir að nafngift félaganna, sem flest bera sama nafn en eru aðeins aðgreind með númeri, er einmitt lýsandi.
Grunnatriðið við þetta fyrirkomulag, eins og rannsóknarnefnd Alþingis vakti raunar athygli á í skýrslu sinni, er að tryggja forgangsröðun fjármögnunar. Þetta er þekkt í alþjóðlegum fjármögnunarsamningum og raunar alsiða í jafn stórum samningum og hér var um að tefla, þar sem í hlut eiga alþjóðleg fyrirtæki og bankastofnanir og viðskipti ná þvert á mismunandi lögsögu ríkja.
Kröfuhafar félaga ráða að sjálfsögðu þessari uppbyggingu, enda leitast þeir við að tryggja hag sinn sem best. Hætt er við að þeir sem lesa grein Fréttatímans, þar sem talað er um að ég hafi búið til „flókið eignanet, líkt og margir aðrir útrásarvíkingar“, fái á tilfinninguna að þarna sé eitthvað gruggugt á ferð. Þá gleymist að taka með í reikninginn að risastórt, alþjóðlegt fyrirtæki á borð við Actavis er með starfsemi í fjölmörgum löndum og lánardrottnar eru stærstu fjármálafyrirtæki heims. Er líklegt að þau fjármálafyrirtæki semji við fyrirtæki þar sem eigendur setja upp einhvers konar flókið net, sjálfum sér til hagsbóta? Er ekki líklegra að uppbyggingin sé einmitt að kröfu lánardrottnanna og að þeir telji hag sínum best borgið með þessum hætti?
Ég hafði nú samt lúmskt gaman af misskilningnum sem fólst í því að segja að ég hefði búið til flókið „eignanet, líkt og margir aðrir útrásarvíkingar.“ Staðreyndin er auðvitað sú, að á meðan ég var sannarlega með eignanet voru aðrir með skuldaflækju. Sú netflækja endaði auðvitað beint í skrúfunni á hriplekum skipum þeirra.