Ósannindi um fjármögnun

Í viðtali við DV í dag fær annar eigandi svissneska gagnaversins Datacell, Ólafur Sigurvinsson, að láta móðan mása um allt það sem hann telur rekstri fyrirtækisins hér á landi mótdrægt. Þar kennir hann stjórnvöldum að mestu leyti um og heldur því fram að þau kæri sig ekki um að fyrirtæki hans fari í samkeppni við gagnaver Verne Holdings á Reykjanesi. Hann gerir jafnframt sitt besta til að gera lög um heimild til samninga um gagnaverið tortryggileg. Grófasta atlagan í viðtalinu felst þó í þeirri fullyrðingu, sem sett er fram í lokin en þar segir: „Þess má geta að verkefni Verne Holdings er að mestu fjármagnað af íslenska ríkinu á meðan Datacell hafði á prjónunum að koma hingað með beint erlent fjármagn.“ Erfitt er að átta sig á hvort Ólafur ber ábyrgð á þessari fullyrðingu eða viðkomandi blaðamaður, Björn Teitsson. Sama hvor er – fullyrðingin er ósönn.

 

Því verður seint trúað að gagnaversmaðurinn Ólafur eða blaðamaðurinn Björn viti ekki betur, jafn ítarlega og fjallað hefur verið um gagnaverið á Reykjanesi. Góð vísa er greinilega aldrei of oft kveðin og því rétt að tíunda enn á ný hverjir eiga gagnaverið og leggja fram fé til þeirrar fjárfestingar.

Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun Verne Holdings og átti í upphafi 40% hlut. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust, eins og greint hefur verið frá hér, en hlutur Novators er um fimmtungur. Reiknað er með að heildarfjárfesting þessara eigenda gagnaversins muni nema um 700 milljónum dala þegar það verður fullbúið. Allt það fé er erlent fjármagn og rennur til að skjóta stoðum undir atvinnulíf á því svæði landsins þar sem atvinnuleysi er hvað mest.