Ófullnægjandi frásögn
Rannsóknarnefnd Alþingis túlkar óljós ummæli Sigurjóns Þ. Árnasonar á þann
veg að ég hefði ekki viljað tala við fulltrúa Glitnis heldur Seðlabankann
sunnudaginn 28. september 2008. Þarna er frásögn ófullnægjandi. Væntanlega er
Sigurjón að vísa til þess að mér fannst blasa við þegar líða tók á þennan
sunnudag að Seðlabankinn réði öllu um örlög Glitnis. Það hins vegar breytti því
ekki að ég ræddi við fulltrúa Glitnis þennan dag.
Í 7.bindi rannsóknarskýrslunnar, kafla 20 er fjallað um atburðarásina frá því beiðni Gltinis um fyrirgreiðslu kom fram þar til bankarnir féllu. Á bls. 45 segir:
Sigurjón Þ. Árnason lýsti því við skýrslutöku að um kl. 18 sunnudaginn 28. september 2008 hefðu bankastjórar Landsbankans og Björgólfur Thor Björgólfsson fundað með forsvarsmönnum Glitnis í höfuðstöðvum Novators. Sigurjón segist telja að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi í raun ekki viljað tala við fulltrúa Glitnis heldur fremur við Seðlabankann.
Athugasemd við þennan kafla eru eftirfarandi:
Björgólfur Thor, stjórnarformaður Straums, og Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, áttu fund í húsakynnum Samsonar á Íslandi síðdegis sunnudaginn 28. september með forsvarsmönnum Glitnis, – þeim Þorsteini Má Vilhjálmssyni, formanni stjórnar, Jóni Sigurðssyni, forstjóra FL Group og Jóni Ásgeir Jóhannessyni. Bankastjóri Glitnis, Lárus Welding, var fjarverandi.
- Eigendur Glitnis gerðu ekki grein fyrir umfangi heildarvanda Glitnis, – aðeins að lausafjárskortur væri yfirvofandi.
- Rætt var um mögulega sameiningu Landsbankans, Straums og Glitnis. Hvorki bækur Glitnis né heldur hinna bankanna tveggja voru lagðar fram og því var engin efnisleg umræða um hvernig sameiningin gæti átt sér stað.
- Helst var rætt um skiptingu eignarhluta og skipan stjórnar.
- Björgólfur Thor fór fram á að fá eitthvert tilboð, sem hægt yrði að taka afstöðu til, vegna sameiningar. Óskaði hann eftir því innan tveggja tíma.
Mikilvægt er að hafa í huga að Björgólfur Thor hafði heyrt af vanda Glitnis rétt fyrir hádegi þennan sama dag. Hafði hann um hádegi átti fund með stjórnendum Landsbankans og formanni og varaformanni bankaráðs. Auk þess að vera annar aðaleigandi Landsbankans var Björgólfur Thor stjórnarformaður Straums en vilji var til þess að sá banki yrði aðili að hugsanlegri sameiningu banka.
Landsbankinn hafði upp úr hádegi unnið og sent til Seðlabanka Íslands tillögu að sameiningu Landsbankans, Straums og Glitnis með nauðsynlegri þátttöku íslenskra stjórnvalda. Ekki liggur fyrir hvort að höfnun Seðlabankans á því tilboði lá fyrir þegar þessi fundur á sér stað en engum fundarmanna var hins vegar ljóst hver raunverulegur vilji Seðlabankans eða stjórnvalda var á þessum tíma.
Á sama tíma og þessi fundur var haldinn átti varaformaður bankaráðs Landsbankans fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra sem kom til landsins um morguninn frá Bandaríkjunum.
Björgólfur Thor var staðfastlega þeirrar skoðunar, sem hann hafði gert forsætisráðherra grein fyrir í byrjun ágúst og byggði hana á úttekt Credit Suisse, að ríkisvaldið – Seðlabankinn og ríkissjóður – yrðu að koma að sameiningu bankanna. Nýtt fé yrði að koma inn í bankana og á þessum tíma var útilokað fyrir eigendur að koma með það fé. Hins vegar var til aukið eigið fé hjá Straumi, ásamt erlendu stjórnendateymi, og því var mikilvægt að sá banki væri inn í myndinni þegar rætt var um sameiningar bankann. Þess vegna fannst Björgólfi Thor mestu skipta að heyra í Seðlabankamönnum enda voru örlög Glitnis á þessari stundu í höndum þeirra.