Nýjum störfum skipað upp

Á vef Víkurfrétta í Reykjanesbæ er lýsandi fyrirsögn á frétt um gagnaver Verne Global: Nýjum störfum skipað upp. Þar segir frá því að undanfarið hafi verið auglýst eftir fólki til starfa við gagnaverið. Með fréttinni fylgir myndskeið, sem sýnir þegar tækjabúnaði í gagnaverið var skipað upp  í Helguvík.

 

Morgunblaðið birti á laugardag ágæta frétt af uppbyggingu gagnaversins. Þar kemur m.a. fram að gagnaverið muni skapa um 100 störf. Mikilvægi slíkrar atvinnusköpunar, í þeim hluta landsins þar sem atvinnuleysi er mest, ætti öllum að vera ljóst.

Hér er frétt Morgunblaðsins:

15.okt-Mbl-Verne

Fréttavefur Víkurfrétta skýrði frá því á laugardagskvöldið að flutningaskipið sem flutti einingarnar í gagnaverið væri lagst að bryggju í Helguvík. Morgunblaðið tók þá frétt upp á fréttavef sínum, mbl.is. Þá sagði Stöð 2 einnig þessi góðu tíðindi í fréttatíma sínum á sunnudagskvöld.

Það er sannarlega fagnaðarefni að uppbygging gagnaversins gangi jafn greiðlega og raun ber vitni. Ég efast ekki um að starfsemi þess verður mikilvæg viðbót í atvinnulífi Reykjaness.