Niðurtalning hafin

Uppbygging gagnavers Verne Global á Suðurnesjum gengur vel. Í vikunni var skýrt frá því að breska fjarskiptafyrirtækið Colt muni flytja allan búnað í gagnaverið til landsins og að gert sé ráð fyrir að það geti tekið til starfa eftir fjóra mánuði. Colt hefur sett upp sérstakan teljara, sem telur niður dagana fram að lokum verksins.

 

Colt skýrði frá þessu á heimasíðu sinni í vikunni, en fréttin hefur vakið verðskuldaða athygli. Þannig skýrði CNN frá þessu á þriðjudag og að sjálfsögðu fylgdust Víkurfréttir í Reykjanesbæ með, enda mun starfsemi gagnaversins skjóta stoðum undir atvinnulíf á heimasvæði blaðsins; því svæði landsins þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Vefritið Smugan flutti einnig ágæta frétt og erlend fagrit, sem fylgjast vel með nýjungum á þessu sviði, hafa einnig gert málinu skil, eins og dæmi má sjá um hér.

Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings og átti í upphafi 40% hlut. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust, eins og greint hefur verið frá hér, en hlutur Novators er um fimmtungur. Reiknað er með að heildarfjárfesting þessara eigenda gagnaversins muni nema um 700 milljónum dala þegar það verður fullbúið. Allt það fé er erlent og er því hér um að ræða beina erlenda fjárfestingu.